136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:49]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég hef hug á því að bæta aðeins við umræðuna um stjórnlagaþingið. Ég hef lítið komið að því í tveimur ræðum mínum og tel því ástæðu til að fara aðeins betur yfir afstöðu mína til þess og gagnrýni á þær hugmyndir sem fyrir liggja í frumvarpinu og breytingartillögum við því. Ég vil þó láta koma fram að ég hef flutt breytingartillögu þess efnis að 4. gr. frumvarpsins falli brott. Sú tillaga liggur fyrir hér á þingskjali og er unnt að taka afstöðu til hennar þegar þar að kemur.

Ég vil líka segja að mér finnst að yfirlýsingar frá fulltrúa Framsóknarflokksins, þingflokks framsóknarmanna, hér í þingsal og enn fremur yfirlýsingar hennar í fjölmiðlum bera það með sér að flokkurinn hefur fallið frá því að beita sér fyrir því að þessar tillögur verði lögfestar. Auðvitað hefur hann ekki kallað tillögurnar aftur formlega í þingsal en hér er um að ræða einn af fjórum flutningsmönnum frumvarpsins sem hefur lýst því yfir að hann hafi fallið frá þessu máli og það er sá flutningsmaður sem hefur beitt sér fyrir því að tillaga um stjórnlagaþing væri inni í frumvarpinu.

Það er því eðlilegt að spurt sé hvort þessi tillaga sé til umræðu enn eða hvort flutningsmenn hafi afturkallað þessa tillögu frumvarpsins sem er auðvitað hægt að gera með formlegum hætti. Það hefur ekki verið gert og þá hlýtur maður að spyrja hvers vegna. Er það vegna þess að yfirlýsingar formanns þingflokks framsóknarmanna eru bara fyrir fjölmiðla en ekki fyrir umræðuna í þinginu? Gilda þær ekki hér í umræðum í þinginu? Ég á ekki von á því að nokkur haldi því fram að svo sé að yfirlýsingarnar gildi ekki gagnvart þinginu.

Þá er það hin skýringin sem kann að vera rétt, þ.e. að hinir flutningsmennirnir þrír hafi ekki fallist á að afturkalla tillöguna um stjórnlagaþing. Ég lít þá á að staðan sé þannig núna að aðrir flutningsmenn frumvarpsins haldi til streitu ákvæðum 4. gr. um stjórnlagaþing. Ég held því að menn verði að skilgreina umræðuna, að það er að kröfu annarra þingflokka, þriggja þingflokka, sem þessi tillaga er hér til umræðu áfram í 2. umr. um málið. Að öðrum kosti væri eðlilegt að kalla málið til nefndar og gera hlé á þessari umræðu þar til greitt hefur verið úr því hvort flutningsmenn flytja enn málið sem þeir lögðu fram. Það þarf að skýra það.

En varðandi stjórnlagaþingið er ég andvígur því eins og kemur fram í breytingartillögu minni, kannski ekki vegna þess að ég er algerlega fráhverfur þeirri hugmynd að semja nýja stjórnarskrá, mér finnst það koma til greina. Mér finnst í sjálfu sér ekki vera þörf á því. Það hefur ekkert það gerst í þjóðfélaginu eða sú gagnrýni komið á stjórnarskrána sem rökstyður að hún sé í heild sinni það illa farið plagg að semja þurfi nýtt. En hins vegar kann að vera að menn vilji skrifa skjalið upp á nýtt og fara yfir ýmis sjónarmið sem hafa komið fram frá því að stjórnarskráin var samin á sínum tíma og síðan að rætt var um endurskoðun á einstökum köflum hennar. Síðasta umræðan af því tagi fór fram 1994 og 1995 þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var algjörlega endurskoðaður og náðist fullt samkomulag um nýjan kafla sem ég tel að sé mjög góður og nútímalegur og engin þörf á að skrifa upp á nýtt þó að auðvitað kunni að vera sjónarmið um breyta einhverju í honum. Það sem þingið hefur þó gert tel ég vera þannig að það kalli ekki á ástæðu til þess að slá af stjórnarskrána sem heillegt plagg.

En ef menn ætla að skrifa nýja stjórnarskrá gera menn það ekki með þeim hætti sem hér er lagt til. Það tel ég algjörlega að sé borin von að nokkurt vit náist í slíkt skjal. Bæði er tíminn stuttur og fyrirkomulagið og valið á þeim sem eiga að koma að því er með þeim hætti að ég tel nánast engar líkur á því að heillegar hugmyndir komi fram eða samkomulag náist um það á þeim tíma sem gefinn er. Að semja nýja stjórnarskrá er mikið verk. Til þess þurfa menn að gefa sér nokkuð langan tíma sem er talinn í árum og tiltölulega margir aðilar þurfa að koma að því ferli á öllum stigum þess svo að út úr þeirri vinnu náist að lokum víðtækt samkomulag um nýja stjórnarskrá. Það er hugsanlegt að ná samkomulagi um slíkt. Mér finnst engin ástæða til að slá það af. En þær hugmyndir sem hér eru eru með þeim hætti að það er nánast útilokað að mínu viti að út úr þessu komi skynsamleg niðurstaða með því formi sem gert er ráð fyrir.

Mér finnst líka mikill galli á þessum tillögum að gert er ráð fyrir því í þeim að færa stjórnarskrárvaldið til Alþingis í allt of mörgum atriðum. Í fyrsta lagi er farið algjörlega fram hjá þjóðinni í því að ákveða stjórnlagaþing. Meginkjarni frumvarpsins er að breyta forminu þannig að það verði þjóðin framvegis sem breyti stjórnarskránni en ekki Alþingi sjálft og um þá breytingu heyrist mér vera nokkuð víðtæk samstaða. En menn taka stjórnlagaþingið undan því formi. Það á ekki að bera það undir þjóðina hvort hún vill stjórnlagaþing eða hvort hún vill stjórnlagaþing eins og gert er ráð fyrir í tillögunum. Það finnst mér mikill galli á málinu.

Í öðru lagi ætlar Alþingi, þ.e. sá meiri hluti sem stendur að málinu, að færa sjálfu sér vald sem að öðru jöfnu er í stjórnarskránni sjálfri. Þá taka menn sér miklu meira vald en eðlilegt er og viðgengist hefur við breytingar á stjórnarskrá. Það gengur í öfuga átt við megintilgang frumvarpsins.

Þannig er t.d. gert ráð fyrir því í breytingartillögum meiri hlutans að ákvarða eigi með lögum þætti eins og kjörgengi og kosningu á stjórnlagaþingið og skipulag þess sem er í núverandi stjórnarskrá ákveðið hvað varðar kosningu og kjörgengi til Alþingis. Kjörgengi til Alþingis er ekki ákveðið í lögum heldur í stjórnarskránni vegna þess að Alþingi á ekki sjálft að geta tekið eitt ákvarðanir um það. Til þess þarf þá alla vega alþingiskosningu á milli eins og staðan er núna. Þannig segir t.d. í 9. gr. um forseta lýðveldisins að hann megi ekki vera alþingismaður, þar er ákvörðun um kjörgengi til Alþingis bundin í stjórnarskránni. Og í 34. gr. segir að hæstaréttardómarar séu ekki kjörgengir til Alþingis.

Hins vegar á kjörgengið í stjórnlagaþinginu að vera ákveðið í lögum. Í drögum að frumvarpi sem fylgir með stjórnlagafrumvarpinu er gerð grein fyrir þessum ákvæðum í 6. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra og ráðherrar eru þó ekki kjörgengir.“ Kjörgengisskilyrði til kosninga til stjórnlagaþings er ákveðið með lögum en ekki ákveðið í stjórnarskrá. Hvernig má það vera að í stjórnlagaþingi sem á að semja stjórnarskrá skuli ekki vera ákvæði um kjörgengi á sama hátt og er um kjörgengi til Alþingis sem hefur þann rétt að gera breytingar á stjórnarskrá? Menn færa valdið úr stjórnarskránni til þingsins. Það er í öfuga átt. Sama á við um kosninguna, það á að ákveða algjörlega með lögum hvernig kosning til stjórnlagaþings fer fram en miðað við frumvarpið er gert ráð fyrir að landið sé eitt kjördæmi.

Í stjórnarskránni eru ákvæði um kosningar til Alþingis kirfilega negldar niður þannig að Alþingi getur ekki gert breytingar á meginrammanum. Það getur þó aðeins gert breytingar á mörkum kjördæma og breytingu á ákveðnum ákvæðum hvað varðar úthlutun þingsæta en þá því aðeins að tveir þriðju alþingismanna séu því sammála. Það er enginn rammi settur í stjórnarskrána heldur á allt að ákvarðast í lögum og fyrirkomulagið er þar að auki með kynjaákvæði sem er í raun og veru, þó það sé ágætt markmið, fyrirmæli eða heimild til Alþingis að geta ógilt alþingiskosningar (Forseti hringir.) ef því sýnist svo. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt.