139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

umhverfismengun frá fyrirtækjum -- umræða um stjórn fiskveiða -- koma hvítabjarna o.fl.

[11:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að það vannst tími til þess að ég gæti komið hér upp og brugðist örlítið við orðum hv. formanns umhverfisnefndar, Marðar Árnasonar. Það er nú á eina bókina lært að samfylkingarþingmenn virðast vera haldnir pínulitlu minnisleysi því að þeir muna ekki að þeir eru búnir að vera í ríkisstjórn í fjögur ár. Hér hefur Samfylkingin haft fjögur ár til að taka sig í gegn í umhverfismálum. Í síðustu kosningum var slagorðið „Grænt Ísland“. Nú eru Vinstri grænir komnir með Samfylkingunni í ríkisstjórn og eins og allir vita seldu þeir sig sem umhverfisflokk í síðustu kosningabaráttu og hafa gert allt frá stofnun hans þannig að nú skal bara tekið á, herra formaður umhverfisnefndar. Þessi mengun er til staðar. Umhverfisstofnun sem er sprottin upp úr reglugerð frá Evrópusambandinu, hvað annað, ein kratastofnunin, eftirlitsstofnunin sem á að vera hér með eftirlit, svipað og Fjármálaeftirlitið, virðist vera að bregðast eins og Fjármálaeftirlitið gerði hér í aðdraganda hrunsins. Mengun eftir mengun, mengunarstaður eftir mengunarstað fara svo langt fram úr leyfilegum mörkum og stofnunin aðhefst ekkert. Það er eins og að fyrirmyndin sé sótt í Fjármálaeftirlitið, því miður, þannig að nú hvet ég hv. formann umhverfisnefndar til að kalla aðila frá Umhverfisstofnun fyrir umhverfisnefnd í næstu viku, í nefndavikunni, og við förum sameiginlega yfir þau vinnubrögð sem eru viðhöfð í stofnuninni þegar grunur vaknar um mengun eða það er hreinlega tilkynnt um mengun. Ég skora á þingmanninn að verða við þessari ósk minni og óska eftir að málið verði sett á dagskrá í nefndavikunni.