144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

úrvinnslugjald.

650. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leyfa mér að skýra þetta aðeins betur. Ég skal viðurkenna að líklega er þingmaðurinn sem spyr mig hér á undan meiri sérfræðingur í þessum málum en ég, enda kom hann að því að innleiða þessar reglur. Við áttum fund með sveitarfélögunum og ég hef verið í samskiptum við bæði félög atvinnulífsins og sveitarfélaganna og það er í rauninni enginn ágreiningur um það hvar framleiðendaábyrgðin liggur. Framleiðendaábyrgð er þannig að sem sá sem framleiðir vöruna eða, eins og er oftar í tilviki okkar á Íslandi, sá sem flytur hana inn ber ábyrgð á því að skila ákveðnu gjaldi til Úrvinnslusjóðs. Tilskipunin gerir beinlínis ráð fyrir því þegar hún er innleidd hér á landi árið 2002 að atvinnulífið fari með stjórn þessa sjóðs. Þar af leiðandi fer sú breyting sem við gerðum í fyrra gegn markmiðum tilskipunarinnar. Lögfræðilega get ég ekki útskýrt mikið betur hvers vegna, en það voru allir aðilar sammála um það að þessi svokallaða framleiðendaábyrgð sem framlenging á mengunarbótareglunni ætti að vera í höndunum á atvinnulífinu.