136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:33]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér enn um það mikilvæga mál sem verið hefur á dagskrá þingsins nú í nokkra daga þó með þeirri undantekningu að fyrir páska varð hæstv. forseti við ósk okkar sjálfstæðismanna um að taka á dagskrá mál sem varða heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er vissulega fyllsta ástæða til þess að þakka fyrir það, hæstv. forseti.

Ég hefði viljað, hæstv. forseti, að frumvarpið um fjárfestingarsamninginn varðandi álverið í Helguvík yrði líka tekið hér fram fyrir og rætt með sama hætti og gerðist í dag og miðvikudaginn fyrir páska, en álverið í Helguvík, og framkvæmdir við það, er auðvitað mál sem varðar heimili og fjölskyldur á því svæði þar sem mesta atvinnuleysið á landinu er. Ég fer því enn fram á það, hæstv. forseti, að þetta mál verði tekið hér á dagskrá og umræðunni um stjórnarskipunarlögin, þrátt fyrir mikilvægi þeirra, verði þá frestað því að þau varða ekki með sama hætti hag heimila og fjölskyldna í landinu.

Hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans hefur orðið tíðrætt hér í andsvörum um að sjálfstæðismenn raði sér á mælendaskrá og stundi málþóf. Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að mótmæla því, ég get bara ekki tekið undir það að um málþóf sé að ræða. Hér hefur farið fram málefnaleg umræða en málið er einfaldlega mjög mikilvægt og það er vanreifað í samfélaginu og þarfnast því, að mínu mati, vandaðrar umfjöllunar hér á Alþingi. Breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins eru auðvitað mjög mikið mál sem ekki á að hrista fram úr erminni á stuttum tíma, korteri fyrir kosningar, eins og hér er ætlunin að gera. Allt bendir til þess að hér sé verið að rjúfa þá hefð sem verið hefur, að breið sátt sé um stjórnarskrárbreytingar. Það hefur margoft komið fram í þessari umræðu að aðeins í tvígang frá fullveldi 1918 hefur það gerst að breytingar á stjórnarskrá hafi verið gerðar í andstöðu við heilan stjórnmálaflokk.

Hvaða breytingar er rétt að gera gegn vilja minni hluta? Þannig spyr Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, í nefndaráliti sínu til sérnefndar um stjórnarskrárbreytingar.

Hún segir í umsögn sinni um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrár eru ólíkar öðrum lögum að setningarhætti og vegna þess að þær eiga að leggja stórar línur og vera hafnar yfir pólitískar deilur á hverjum tíma. Vegna þess eðlis stjórnarskráa breytast þær oft hægt, eru gjarnan gamlar í ríkjum með gamla lýðræðishefð og breytingar á þeim eru tiltölulega sjaldgæfar. Á grundvelli alls þessa er það skoðun mín að það væri afar óheppilegt ef nú yrði vikið frá þeirri hefð að breið samstaða allra flokka sé um breytingar á stjórnarskrá.“

Nú ætlar stjórnarmeirihlutinn að knýja fram breytingar á stjórnarskrá án samráðs við stærsta flokkinn á þingi og rjúfa þar með þessa hefð og ógna með því stöðugleika. Megum við nú eiga von á því að stjórnarskránni verði breytt þegar ný ríkisstjórn nær völdum, er það þetta sem bíður okkar? Við sjálfstæðismenn höfum bent á það í ræðum okkar að í umsögnum sem sérnefndinni bárust mæla flestallir álitsgjafar gegn því að stjórnarskrárbreytingar verði ekki gerðar nema að vel ígrunduðu máli og mikil sátt sé meðal allra aðila. Það er gegnumgangandi í öllum nefndarálitum að ekki eigi að gera breytingar á stjórnarskránni nú svo stuttu fyrir kosningar heldur væri æskilegra að þær bíði nýs þings auk þess sem vinnubrögðin eru harðlega gagnrýnd þar sem aðeins var gefin ein vika til að skila umsögnum um þetta mikilvæga mál. Vinnubrögðin við svo mikilvægt mál eru ekki boðleg, herra forseti. Þess vegna er það mjög mikilvægt að stjórnarliðar sjái að sér í þessu máli og ljái því máls, sem við sjálfstæðismenn höfum boðið, að taka málið aftur inn í nefnd og komast að sameiginlegri niðurstöðu um það. Þá getum við snúið okkur að því sem þjóðin vill að við séum að ræða hér á Alþingi og vinna að, þ.e. að vinna að þeim málum sem skipta heimilin og fyrirtækin í landinu mestu.

Maður verður ekki var við að almennur fögnuður sé úti í samfélaginu vegna þess frumvarps sem við ræðum hér heldur þvert á móti. Fólk skilur ekki alveg hvers vegna við erum ekki að ræða málefni fjölskyldna og það skilur ekki alveg að breytingar á stjórnarskránni geti ekki beðið þar til róast fer í þjóðfélaginu og hér fari að birta til í atvinnumálum á ný og jafnvægi komist á heimilin og fyrirtækin í landinu.

Ég hef í fyrri ræðum mínum fjallað nokkuð ítarlega um stjórnlagaþing og tekið undir með þeim sem telja að stjórnlagaþing eigi fyrst og fremst að vera ráðgefandi. Ég hef ítrekað bent á, í mínum fyrri ræðum, að hugmyndin um stjórnlagaþing hefur ekki fengið nægilega athygli í þjóðfélaginu. Þess vegna hefur þjóðfélagsumræðan ekki verið mikil um þetta mál. Almenningur í landinu veit ekki nákvæmlega hver hugmyndin að baki stjórnlagaþingi er, ég tel að það vanti töluvert mikið upp á að svo sé. Það á algjörlega eftir að ræða þessa hugmynd í þaula.

Í frumvarpinu og í nefndaráliti meiri hluta sérnefndar er útfærslan á stjórnlagaþingi langt frá því að vera nægilega skýr. Raunar er það svo að nefndarálitið gerir útfærsluna á stjórnlagaþingi enn óljósari.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í drögum að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem er fylgiskjal með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga er lagt til að kosið verði persónukjöri á þingið. Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar. Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mun verða stjórnarskrá þjóðarinnar allrar. Enda þótt aðkoma almennings alls verði tryggð, t.d. með opnum fundum, upplýsingagjöf og málþingum og að auðvelt verði að senda inn umsagnir, þarf jafnframt að tryggja að á þinginu sjálfu sitji þjóðin öll eða fulltrúar hennar. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Ég tel að útfærsla stjórnlagaþings sé alls ekki nægilega skýr. Í greinargerð með frumvarpinu segir einnig að hugtakið stjórnlagaþing sé ekki fastmótað.

Virðulegi forseti. Nú eru 11 eða 12 dagar þar til kosið verður að nýju. Við þær aðstæður hlýtur að vera eðlilegt að fresta umræðunni um þetta mikilvæga mál og gefa nýju þingi ráðrúm til að fjalla um málið, (Forseti hringir.) og verða við þeirri ósk okkar sjálfstæðismanna að taka þau mál til umræðu og afgreiðslu sem skipta heimilin og fjölskyldurnar í þessu landi mestu máli.