136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:14]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Dag eftir dag á Alþingi Íslendinga hefur stjórnarskrármálið verið sett á undan mikilvægum málum sem nauðsynlegt er að afgreiða. Því er það fagnaðarefni að mál nr. 409, um fjármálafyrirtæki, mál nr. 461, um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, og mál nr. 410, tekjuskattur, voru sett á dagskrá áður en 2. umr. um stjórnarskipunarlögin er framhaldið. Það er ánægjuefni að við tókum þrjú mál á undan þessu.

Eftir sem áður eru ýmis málefni órædd og því vekur það furðu að stjórnarskrármálið skuli vera notað til að teppa önnur mál. Ég vil ítreka þá ósk við forseta að við ræðum í þinginu um það sem skiptir máli fyrir afkomu landsmanna í því kreppuástandi sem ríkir hér á landi, málefni fyrirtækja og heimila, því að þau mál eru algjör forgangsatriði í stöðunni sem við erum í. Við verðum að taka á þeim málum og síðan er upplagt að ræða stjórnarskrármál og hver önnur þau mál sem um getur. Við verðum að forgangsraða. Því hvet ég til þess að hæstv. forseti fresti 2. umr. um stjórnarskipunarlögin.

Virðulegi forseti. Hvergi í heiminum eru dæmi þess að stjórnarskrá sé breytt eftir rúmlega mánaðarumfjöllun á þingi en sem kunnugt er lagði hæstv. forsætisráðherra þetta mál fram þann 6. mars síðastliðinn. Hvergi eru þess dæmi að mál séu afgreidd á þennan hátt því að í flestum stjórnarskrám og í öllum rituðum stjórnarskrám þjóða heims eru einmitt ákvæði um það hvernig staðið skuli að breytingum á stjórnarskrám.

Reyndar er það svo að allar ritaðar stjórnarskrár í heiminum taka á fjórum þáttum: Í fyrsta lagi á stjórnskipunarforminu. Í öðru lagi á mannréttindum. Í þriðja lagi er rætt um skiptingu valds, um valdhafa og valdmörk. Og síðast en ekki síst er í fjórða lagi fjallað um hvernig standa skuli að því að breyta stjórnarskrám.

Þá má undir engum kringumstæðum gera stjórnarskrá að pólitísku átakaskjali. Við þurfum að umgangast stjórnarskrá Íslands af virðingu. En eins og kunnugt er eru núverandi tillögur um breytingar lagðar fram í því ljósi að Framsóknarflokkur setti það sem skilyrði fyrir því að verja hæstv. minnihlutastjórn þá sem nú situr að sett yrði ákvæði um stjórnlagaþing í frumvarpi. Að sama skapi hafði hæstv. núverandi ríkisstjórn sett fram þá verkefnaáætlun sem gerir ráð fyrir því að ræða breytingar á stjórnarskrá og koma til framkvæmda. En ég endurtek: Hvergi nokkurs staðar er hægt að breyta stjórnarskrá á einum mánuði.

Í 79. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um hvernig staðið skuli að breytingum á henni. Ég hef áður gert grein fyrir 79. gr. í umfjöllunarefni í ræðu sem ég flutti fyrir páska og mun því ekki gera svo að þessu sinni.

Ég vil aðeins ræða stjórnlagaþingið. Það er 4. gr. frumvarpsins sem um ræðir. Hugmyndin um stjórnlagaþingið er nokkuð óljós. Það kemur m.a. fram í greinargerð með frumvarpinu því að á blaðsíðu 22 segir:

„Hugtakið stjórnlagaþing er ekki fastmótað en eins og nafnið gefur til kynna hefur slíkt þing það hlutverk að semja ný stjórnlög eða reglur um stjórnskipun ríkis eða breyta þeim sem fyrir eru og þar sitja venjulega þjóðkjörnir fulltrúar, oftast af þjóðþingum.“

Í allflestum tilvikum eru það þingmenn sem skipa stjórnlagaþingið.

Hugmyndin er í öllu falli afar óljós og það kemur fram í greinargerðinni. Vettvangur stjórnlagaþings er eins og vettvangur Alþingis, þ.e. þjóðkjörinn vettvangur. Breytingar á stjórnarskránni eru hluti af verkefnum Alþingis. Samkvæmt frumvarpinu er gefið til kynna að alþingismenn séu ekki hæfir til að breyta stjórnarskrá en um leið liggur í orðanna hljóðan að stjórnlagaþingmaður væri það. Þetta er mjög einkennilegt mál.

Verið er að segja að þingmenn sé vanhæfir. Ef þeir eru vanhæfir núna verða þeir það væntanlega í framtíðinni, ekki bara um stjórnarskrármál heldur væntanlega um önnur mál. Ef Alþingi er vanhæft þarf auðvitað að leggja það niður, það gefur augaleið.

Spurningin er: Hvers vegna þarf að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni? Ef við göngumst við því að það væri skynsamlegt — þessi stjórnarskrá hefur verið í gildi síðan 1944 með nokkrum breytingum þó — væri ekkert úr vegi að setja saman stjórnlagaþing og það mætti vera skipað fólki sem eru ekki kjörnir þingmenn. Ég hef ekkert á móti því. En slíkt þing þyrfti í öllu falli að vera ráðgefandi þing fremur en að taka á sig mynd Alþingis og þá eru tvö Alþingi og tveir stjórnarskrárgjafar starfandi á sama tíma.

Tillagan um stjórnlagaþing er einsdæmi. Þetta er tilraunastarfsemi. Hvergi er farin þessi leið og hefur það komið fram í greinargerð með frumvarpinu en á blaðsíðu 25 segir að stjórnlagaþingið og fyrirkomulagið sem mælt er fyrir um í frumvarpinu sé nýmæli sem eigi sér enga beina fyrirmynd í sögu stjórnlagaþinga eða þjóðfunda í lýðræðisríkjum frá síðustu öldum. Þetta er tilraunastarfsemi, virðulegi forseti. Ég hafna því að við stundum slíka tilraunastarfsemi um jafnmikið grundvallarplagg og stjórnarskráin okkar er.

Eins og fram hefur komið er hugmyndin að núverandi breytingum á stjórnarskrá bæði söguleg og dapurleg. Í fyrsta sinn er hugmyndin að þvinga fram breytingar á stjórnarskrá í óþökk stórs hluta þingmanna, að þvinga fram veigamiklar breytingar í ósætti. Sem kunnugt er eru 27 þingmenn af 63 á móti því frumvarpi sem hér er rætt.

Einnig er mikilvægum málum haldið í gíslingu og brýn mál eru látin bíða til að freista þess að afgreiða breytingar á stjórnarskránni sem eru, eins og áður gat um, illa ígrundaðar. Það eru 27 þingmenn á móti, stór minni hluti. En einnig voru, eins og fram hefur komið, einungis tveir af þeim 27 umsagnaraðilum sem skiluðu áliti um frumvarpið meðmæltir því.

Málsmeðferðin er einsdæmi. Í stjórnarskrám er kveðið á um hvernig breyta á þessum stjórnarskrám og þar er verið að fyrirbyggja að upp komi staða eins og kemur nú upp í íslensku samfélagi. Það er óróleiki í samfélaginu. Það er ríkjandi kreppa og síst af öllu þurfum við á stjórnarkreppu að halda líka. Málsmeðferðin er óásættanleg. Þetta frumvarp er sett fram í nafni lýðræðisumbóta. Það eru mikil öfugmæli, virðulegi forseti, því að lýðræðisumbótum á ekki að koma á í ósætti. Sjálft málið er allt hið ólýðræðislegasta.

Það getur ekki verið að núverandi minnihlutastjórn ætli að reyna að þvinga fram svo mikilvægt mál á allra síðustu mínútum þings þar sem ekki einungis er ósætti heldur kemur fram í breytingartillögum sem meiri hluti nefndarmanna setti fram að breyta þarf að minnsta kosti tíu liðum í frumvarpinu sjálfu.