139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þennan umræðuvaka því full þörf er á honum. Um flúormengunina í Hvalfirði vil ég segja að ég ætla ekki að deila við sérfræðing Matvælastofnunar um að sýkin í hrossunum stafi ekki af flúoreitrun. Ég vil hins vegar segja í fullri alvöru við þá ráðherra sem hér eru staddir eða voru rétt áðan, annars vegar hæstv. umhverfisráðherra Svandísi Svavarsdóttur og hins vegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason, sem ég vona að heyri í mér, að það gengur ekki að stofnanir á þeirra vegum, annars vegar Umhverfisstofnun og hins vegar Matvælastofnun, hagi sér svona. Erindi barst til Umhverfisstofnunar 21. apríl 2009 um þessa sýki. Það var fyrst 14. júní 2010 að Umhverfisstofnun sendi hana til Matvælastofnunar. Matvælastofnun beið í næstum heilt ár með svar, til 4. apríl 2011. Síðan var bið hjá Umhverfisstofnun að svara Ragnheiði Þorgrímsdóttur hrossabónda við Hvalfjörð frá apríl og fram til dagsins í dag, í heilan mánuð. Það var ekki fyrr en fjölmiðlar fóru að fjalla um málið að svarið barst. Þetta eru tvö ár — (Gripið fram í.) það tók þessar tvær stofnanir tvö ár að svara og það gengur ekki. Sennilega gerist þetta ekki neins staðar annars staðar í kerfinu en þar sem átt er við mengun og hættu af henni fyrir dýr og menn.

Um hitt málið er hægt að halda langar ræður sem ég hef því miður ekki tíma til að gera. Ég fagna því að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skuli hafa brugðist við. Rétt er að vekja athygli á því að þær gera það í umhverfismatsferli, í því ferli umhverfismats sem við mörg á þinginu teljum eðlilegt en aðrir, m.a. ýmsir í flokki hv. fyrirspyrjanda, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum hafa amast við og vilja sumir afnema.