139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, nú á þremur árum hafa fjórir hvítabirnir gengið hér á land og þar áður liðu 20 ár frá því vitað var um síðustu komu. En þessar hvítabjarnakomur hafa auðvitað alltaf, alveg hreint frá upphafi landnáms, vakið mikla athygli, mikla hræðslu en líka deilur, kannski ekki síst fyrri hvítabjörninn sem kom á land á Skaga árið 2008 þegar gripið var í gikkinn einn, tveir og þrír eins og hv. þingmaður nefndi. Myndin sem birtist inni í stofu hjá fólki af blóðugum birninum og skotveiðimönnunum hreyfði við mönnum, þar á meðal mér. Ég fordæmdi þessar aðfarir vegna þess að það var aldrei hugað að því að þyrma lífi hvítabjarnarins.

Hæstv. þáverandi umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir brást mjög vel við þessari gagnrýni og þegar næsti hvítabjörn kom greip ráðherra til allra mögulegra ráða sem þá voru í hennar hendi til að þyrma lífi bjarnarins. (Gripið fram í.) Það var gott framtak en það varð því miður árangurslaust. Síðan hefur mikil (Gripið fram í.) vinna verið lögð í að gera viðbragðsáætlun ef til þess kæmi að fleiri birnir gengju á land sem hefur orðið. Ég vitna til álits sérfræðinganefndar, ég vitna til viðræðna við grænlensk yfirvöld og niðurstöðu krufninga og ráðlegginga Karls Skírnissonar sem er manna fróðastur um þessa hluti. Þar ber allt að sama brunni, frú forseti, þó að við vildum og gætum þyrmt lífi hvítabjarna — og það vill sú sem hér stendur — getum við það ekki vegna þess að það vill enginn taka við þeim. Það er alveg ljóst að grænlensk yfirvöld (Gripið fram í.) líta þannig á — það var óathugað þá, hv. þingmaður — má ég fá að klára, frú forseti? (Forseti hringir.) Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem í hverjum einasta fyrirspurnatíma og ræðutíma undir liðnum um störf þingsins (Forseti hringir.) finnur (Gripið fram í.) sér hér einhvers konar fyrirsagnir getur ekki einu sinni þolað mönnum það að (Forseti hringir.) ljúka máli sínu í friði. Það er skömm að þessu. [Kliður í þingsal.]