139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[11:41]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Nei, það hefur ekki verið rætt í umhverfisnefnd að flytja hreindýr hingað og þangað. Það er þannig með þetta frumvarp að fyrir utan nýmæli í því þótti þörf á því að gefa reglugerðarákvæðum, sem áður voru, lagagildi vegna þess að um þau hafði verið efast og þess vegna er þessi langi texti hafinn upp sem þingmaðurinn minntist á.

Í þriðja lagi vil ég beina því til þingmanna Sjálfstæðisflokksins að ef hér er að hefjast málþóf í 3. umr. um hreindýrafrumvarpið, vegna þess að menn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að það er í 2. umr. sem menn eiga einkum að ræða málin, þá vil ég biðja þá að fresta því málþófi þangað til næsta máli á dagskrá þingsins er lokið því að hér bíður hópur fólks eftir því að heyra umræður og fylgjast með afgreiðslu á því máli sem næst kemur á eftir, sem er um íslenska tungu og táknmál. Ég bið menn að sýna þessum gestum þá virðingu að hefja ekki málþóf í miðri heimsókn þeirra til okkar.