131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[11:42]

Jón Gunnarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég sat í sæti mínu og hlustaði mjög gaumgæfilega á það sem forseti sagði þegar hann bar upp þennan lið og þessi atkvæðagreiðsla fór fram. Ég heyrði ekki betur en herra forseti hefði sagt að við greiddum næst atkvæði um liðinn 4.1.5 1 Grunnnet, 1 Almennt verkefni. Ef það er rétt að forseti hafi sagt það sem ég heyrði að við værum að greiða um liðinn almenn verkefni sem gerir ráð fyrir 400 millj. á fyrsta ári, 414 á því næsta, þá er ekki hægt að túlka það með þeim hætti að búið sé að fella heildarupphæðina í stofnkostnað samkvæmt þessari tillögu. Það var eingöngu verið að greiða atkvæði um eftir orðanna hljóðan kaflann Almenn verkefni og ekkert annað og ég óska eftir því að hæstv. forseti skoði það hver formálinn var að þessari atkvæðagreiðslu, hvort ekki sé hægt að fletta því upp og skoða það að hafi verið eingöngu að greiða atkvæði um Almenn verkefni.

(Forseti (HBl): Mér þætti vænt um það að skoða það með hv. þingmanni ef ég mætti læra nokkuð af því.)