136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- orð þingmanns um framlög til stjórnmálaflokka.

[11:02]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Hér á undan mér talaði hv. handhafi réttlætisins, Árni Þór Sigurðsson. Eitt var hins vegar rétt sem hann sagði, eftir að hafa haldið langa ræðu um fortíðina, að það sem skipti mestu máli væri hvernig við héldum á þessu í framtíðinni. Ég kunni vel að meta það sem hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir sagði af hreinskilni í þætti í gær, að flokkur hennar mundi vilja hækka skatta og lækka laun. Þessa hreinskilni kann ég vel að meta. Þetta er það sem við höfum kallað eftir í þessari kosningabaráttu, að flokkarnir legðu á borðið hvernig (Gripið fram í.) þeir ætluðu að nálgast vandamálið í framtíðinni. Ég verð hins vegar að vara við því að menn einblíni á þessa leið í einhverri blindni og telji hana allra meina bót, að vefja saman skattalækkanir og launalækkanir, því að það getur leitt okkur inn í vítahring. Ef við lækkum launin lækkum við líka tekjur ríkisins og þá þurfum við væntanlega að hækka skattana til að vinna upp á móti þeirri tekjulækkun sem þar varð. Þá lækkum við líka aftur tekjur ríkisins vegna þess að það er beint samhengi á milli launanna, á milli skattanna og einkaneyslunnar og beint samhengi á milli einkaneyslunnar og skatttekna ríkis og sveitarfélaga. Það má því gera ráð fyrir að 40% af þeirri upphæð sem laun yrðu lækkuð um muni verða lækkun á tekjum ríkisins. Lausnin felst ekki í því að lækka laun og skattleggja. Lausnin felst í því, herra forseti, að auka verðmætasköpunina, taka á vandanum á þann hátt.