136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir það og hans ánægjulegu þátttöku í þessu máli. Ég held að lengi megi fara yfir málin í nefndunum en ef nefndarmenn telja einhvern vafa leika á að tiltekin ákvæði hafi áhrif sem þurfi að skoða betur, sérstaklega á jafnviðsjárverðum og viðkvæmum tímum í efnahagslífi okkar eins og núna er engin spurning um að ákvæðin verða þá að bíða. Það verður að skoða það betur hvort sem það á við um þetta eða eitthvað annað. Þetta kom fram í mjög ítarlegri yfirferð nefndarinnar og ég er ánægður með að þetta varð niðurstaðan, það hefði ekki verið á það vað leggjandi að ógna stöðu þeirra félaga sem leita fjármögnunar erlendis. Nógu erfitt er að ná erlendu lánsfé inn í landið. Um er að ræða fyrirtæki sem ætla að virkja orkuna og byggja upp iðju sem framleiðir raunveruleg verðmæti og skapar arðbær störf, t.d. álverið í Helguvík. Ef og þegar sá fjárfestingarsamningur nær fram að ganga er talað um að 2–3 þúsund manns muni vinna við uppbyggingu álversins strax í september, 3–4 þúsund í nóvember. Þetta eru gríðarlega mikilvæg áform þegar höggið er hvað þyngst á mannvirkja- og þjónustugeirann, ekkert má verða til að raska slíkum áformum. Þess vegna taldi nefndin og sameinaðist um að þessi ákvæði biðu, þau féllu brott og yrðu skoðuð miklu betur.

Ráðuneytið vann samt sem áður jafn vel að málinu en kom ekki endilega auga á þetta. Til þess er þingið og til þess er nefndin. Allir ráðherrar sem flutt hafa mál til þings hafa séð þau taka breytingum og stundum nánast stakkaskiptum í meðförum þingsins. Það er ekkert annað en jákvætt heilbrigðisvottorð um að Alþingi standi vel að löggjöf og vinnu sinna mála.