136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er engu nær. Ætlar hv. þingmaður að styðja þetta frumvarp? Hvers vegna er öll sú geðvonska sem kemur fram í máli hans uppi höfð þegar þingmaðurinn er hugsanlega eftir sem áður stuðningsmaður málsins? Þá fer þetta nú að verða enn áhugaverðara.

Þetta mál er hluti af stórum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að skapa um 6.000 störf á næstu missirum. Reynt var að fara í þær aðgerðir þannig að öllum tilkostnaði ríkisins í þeim efnum væri haldið í lágmarki. En vissulega eru víða á ferðinni ívilnandi aðgerðir eins og þær að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts og fleiri slíkar aðgerðir sem vissulega leggja tilteknar byrðir á ríkissjóð. En við teljum að það sé góð fjárfesting vegna þess að með þessu minnkar atvinnuleysi og kostnaður af atvinnuleysisbótum og annað í þeim dúr. Þetta frumvarp er hluti af því og það gat ekki orðið að veruleika nema því fylgdu lítils háttar viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð en þó er að verulegu leyti til fyrir þessu á þeim fjárlagalið sem þarna á í hlut.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins æfa sig mjög í útúrsnúningum á ummælum Katrínar Jakobsdóttur sem þeir kalla að hækka skatta og lækka laun. Hvað var hv. þm. Katrín Jakobsdóttir þar að ræða um? Hún var að ræða um mikilvægi þess að verja störfin, að jafna kjörin og verja störfin til að komast hjá stórfelldum uppsögnum og frekara atvinnuleysi. Ef menn hirða um að vitna rétt í fólk og gera því ekki upp skoðanir er þetta það sem verið var að vísa í. En það er auðvitað eftir öðru hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem eru algjörlega rökþrota í sínu málþófi og upphlaupum, að byggja bara á útúrsnúningum. Þeir hirða ekki um að ræða efnislega um hlutina. Það væri fróðlegt að fá góða efnislega umræðu um það hvernig getum við með slíkum aðgerðum reynt að tryggja að sem flestir opinberir starfsmenn og sem flest fólk í þjónustustörfum í samfélaginu haldi a.m.k. fastri vinnu þó að það þýði það að verði að draga ofan frá eitthvað úr launakostnaði. Er það (Forseti hringir.) ekki markmiðið, að reyna að berjast gegn atvinnuleysi og uppsögnum starfsmanna (Forseti hringir.) með öllum tiltækum ráðum eða hvað? Vill Sjálfstæðisflokkurinn frekar að fólki verði (Forseti hringir.) sagt upp í stórum stíl?