136. löggjafarþing — 132. fundur,  16. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[01:02]
Horfa

Ásta Möller (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í andsvar en ég held því fram að hér sé fólk af viti í stjórnarandstöðu, (Gripið fram í.) fólk sem hefur gott vit á þessu, m.a. fyrrverandi formaður heilbrigðisnefndar og líka formaður nefndarinnar sem samdi frumvarpið, hv. þm. Dögg Pálsdóttir. En það sem hefur komið í veg fyrir að frumvarpið fari í gegn, það hefur hvorki farið í gegn á þessu þingi né áður, er kostnaðurinn við það. Það hefur verið metið að það að hrinda frumvarpinu í framkvæmd svo að sómi sé að kosti einn milljarð kr. Við hljótum því að óska eftir því að bæði heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra komi í hús til að svara fyrir það hvernig þeir ætla að finna þennan milljarð sem mér þætti mjög vænt um að kæmi þarna inn með einhverjum hætti. Við hljótum hins vegar að fá að leita eftir þessum upplýsingum frá hæstv. ráðherrum, fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra, til að átta okkur á hvernig gangi að framfylgja frumvarpinu.