138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

aðkoma forsætisráðherra að launamálum seðlabankastjóra.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og gefa mér með því tækifæri til að koma að kjarna málsins þó að ég hafi satt að segja haldið að allt væri komið fram í þessu máli. Það liggja fyrir yfirlýsingar frá mér um að ég hafi ekki komið að launaákvörðunum seðlabankastjóra eða gefið nokkurt fyrirheit í því máli enda er það ekki í mínum verkahring.

Það er líka alveg klárt og staðfest opinberlega og í þingnefnd að bæði Már seðlabankastjóri, formaður stjórnar Seðlabankans og ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins telja að ég hafi hvorki gefið loforð í málinu né komið að ákvörðun um launin. Það er alveg skýrt. Ótrúlegustu menn hafa samt komið í ræðustól og í fjölmiðla og lýst hneykslan á málinu, talað um skort á gegnsæi og brigslað mér hreinlega um að ljúga að þjóðinni. Það er fjarri öllum sannleika, enda er tilgangur þeirra bara sá að gera mig ótrúverðuga og málið allt tortryggilegt. Þar er einskis svifist.

Ég spyr: Hvar er gegnsæi þeirra sem hafa talið sig þess umkomna að vera handhafar sannleikans í málinu? Hafa þeir sjálfir gert grein fyrir sínum málum sem þjóðin kallar eftir, t.d. í styrkjamálunum? Heitir þetta ekki að kasta steini úr glerhúsi? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Það er talað um tölvusamskipti mín og seðlabankastjóra í þessu máli. Það voru engin tölvusamskipti, eða eru það tölvusamskipti þegar Már sendir einn póst sem ég sá enga ástæðu til að svara? Ég vissi af áhyggjum Más um að lækka mikið í launum en það er jafnvíst að hann var alveg klár á minni afstöðu, um að ég væri í engum færum til að taka ákvarðanir í hans málum eða hafa afskipti af þeim á nokkurn hátt.

Hlutur Morgunblaðsins er svo sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Fá mál hafa haft eins mikla vigt í Morgunblaðinu á undanförnum vikum. Morgunblaðið þegir hins vegar um mörg mál sem fram hafa komið í rannsóknarskýrslunni. (Forseti hringir.) Þetta er miðillinn sem þegir þunnu hljóði og var eini fjölmiðillinn sem þagði þegar nefnd Alþingis sem fjallar um rannsóknarskýrsluna ákvað einum rómi að vísa málum fyrri seðlabankastjóra, núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, til saksóknara. (Forseti hringir.) Hvað liggur hér að baki?