138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er allt rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á. Þetta eru engar nýjar fréttir, það er búið að skrifa í skýrslu eftir skýrslu frá Ríkisendurskoðun um þetta agaleysi. Ég benti einmitt á það í ræðu áðan að núna kemur fram í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar að lögð eru fram fjárlög sem allir fara ekki endilega alltaf eftir. Þá þróast þau út í fjáraukalög og þau voru afgreidd, eins og hv. þingmaður þekkir mun betur en ég, til að rétta suma af. En í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að núna séu lokafjárlög að þróast í átt til þess að vera líka eins konar fjáraukalög. Menn setja þar klárlega fjármuni inn í framkvæmdir sem þegar eru hafnar. Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, hvað þetta varðar virðist kannski ekki skipta neinu máli hverjir eru í raun og veru í ríkisstjórn.

Það sem gerist við byggingu tónlistarhúss, af því að ég veit að hv. þingmaður hefur haft mikinn áhuga á því í gegnum tíðina, byrjar þannig að það er ákveðið með 6. gr. heimild að byggja eitt stykki tónlistarhús. Svo þekkjum við alla söguna í því og það er enn haldið áfram með það. Ég verð þó að segja — það kom reyndar líka fram eftir ábendingu frá Ríkisendurskoðun — að einmitt núna þegar fyrir liggur að fara í að stofna hlutafélag um byggingu á nýjum landspítala hafa vinnubrögðin í fjárlaganefnd undanfarna daga verið til mikillar fyrirmyndar að mínu viti. Við höfum verið á fundum um það mál, þar voru allir kallaðir inn sem talin var þörf á að hitta og farið mjög gagnrýnið yfir málið. Svo var líka breytingartillaga frá fjárlaganefnd. Framkvæmdarvaldið verður að koma á seinni stigum þegar lengra er komið í ferlinu og óska eftir sérstöku samþykki frá Alþingi. Það er enn haldið í tauminn þannig að sú vinna var til fyrirmyndar í hv. fjárlaganefnd.