138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[18:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun. Ég fagna því að þessi tillaga sé komin fram og er komin til 2. umr. í þinginu. Flutningsmaður hennar, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, fékk meðflutningsmenn úr öllum þingflokkum og ber að fagna því.

Vinnubrögðin í félagsmálanefnd tel ég hafa verið til fyrirmyndar miðað við aðrar nefndir sem ég hef starfað með í þinginu og það er mjög ánægjulegt að sjá að tillagan nái fram að ganga. Það kemur talsvert á óvart en engu að síður ber að fagna því sérstaklega þegar við náum að vinna málin með þessum hætti.

Ég óskaði eftir utandagskrárumræðu í þinginu fyrr í vetur varðandi málefni fatlaðra og sérstaklega um þá hlið sem snýr að flutningi verkefnisins yfir til sveitarfélaga. Þar ræddu margir þingmenn úr öllum flokkum um að þrátt fyrir að syrt hafi í álinn í fjármálum þjóðarinnar, sé algerlega nauðsynlegt að allir séu meðvitaðir um að í málefnum fatlaðra er enn verk að vinna. Nú stendur til að flytja þann málaflokk yfir til sveitarfélaganna. Samningaviðræður eru enn í gangi um með hvaða hætti það skuli gert og verið er að greina þjónustuþörfina. Það er alveg ljóst að enn á eftir að fara yfir ákveðna þætti. Þeir þættir sem ég hef mestar áhyggjur af snúa að þeim svæðum þar sem lítil þjónusta hefur verið í boði. Ég hef einnig áhyggjur af því með hvaða hætti þeim einstaklingum sem þurfa á þjónustu að halda verði tryggð slík þjónusta. Ég vonast til þess að menn vinni vel að tilfærslunni og skoði ekki eingöngu biðlistana sem fyrir liggja þegar menn greina þjónustuþörf á hverju svæði, heldur að menn séu meðvitaðir um að á þeim svæðum þar sem lítil eða engin þjónusta hefur verið í boði er til staðar dulin þörf eftir þjónustu. Hún kemur til með að koma fram þegar sveitarfélögin hafa tekið við þessu mikilvæga verkefni.

Þingsályktunartillagan um notendastýrða persónulega aðstoð sem við ræðum hér, er mikilvægt skref til að bæta þjónustu við fólk með fötlun. Það er mjög mikilvægt að líta til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þar er viðurkennt að fatlað fólk hefur rétt til að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra. Með þessari tillögu staðfestum við í þinginu þetta. Þetta er mjög mikilvægt skref og mikilvægur dagur í sögu okkar. Mér þykir gott, miðað við þá umræðu sem átti sér stað í fyrrnefndri utandagskrárumræðu, að menn hafi haldið vöku sinni og ætli sér að klára þetta mál. Í tillögunni felst ekki annað en að ráðherra ber að leggja fram tillögu að útfærslu á þjónustunni ásamt frumvarpi til nauðsynlegra lagabreytinga á haustþingi 2010. Þegar ráðherra leggur fram tillögur sínar næsta haust eigum við eftir að ræða málið aftur og ræða hvernig frumvarp til nauðsynlegra lagabreytinga muni líta út. Það er alveg ljóst að við erum ekki að stíga skrefið til fulls heldur erum við að taka mikilvægt skref í rétta átt. Menn hafa spurt með hvaða hætti þetta komi inn í umræðuna varðandi yfirfærslu verkefnisins til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin vilja að sjálfsögðu að það séu skýrar línur um hvaða verkefni nákvæmlega þau taki yfir, hvaða fjármunir muni fylgja o.s.frv. Þetta er sú umræða sem við munum taka í haust þegar ramminn hefur verið skýrður og þegar það mikilvæga skref hefur verið stigið að ráðherrann leggi fram tillögu að útfærslunni. Ég tel algerlega ljóst að flestir eru sammála um að þetta skref og þessar tillögur verði unnar í náinni samvinnu við þá aðila sem þurfa á þjónustunni að halda og eins við þá sem veita þessa þjónustu. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að til séu uppskriftir að málinu og uppskrift að því með hvaða hætti á að innleiða þjónustuna sem að sjálfsögðu er hægt að gera í skrefum. Við skulum átta okkur á því.

Við í félags- og tryggingamálanefnd urðum að sjálfsögðu vör við það í störfum okkar og í þeim umsögnum sem okkur bárust um tillöguna að flestallir aðilar fögnuðu þingsályktunartillögunni. Vissulega höfðu margir áhyggjur af tímarammanum og af því að þetta yrði ekki nógu vel unnið þar sem tímaramminn yrði þröngur. En ég tel að hægt sé að gera góða hluti ef viljinn er fyrir hendi og ég hef fulla trú á því að félags- og tryggingamálaráðuneytið nái að leggja fram útfærðar tillögur um það hvernig þjónustu samkvæmt þingsályktunartillögunni gæti verið háttað. Það þýðir ekkert annað en vera bjartsýnn. Ef viljinn er fyrir hendi er alltaf hægt að finna leið. Miðað við fund sem félags- og tryggingamálanefnd átti með fulltrúum úr ráðuneytinu er alveg ljóst að tíminn er knappur en þetta er samt ekki óvinnandi vegur. Ég tel að þegar málið kemur til þingsins í haust munum við eiga góðar umræður. Þá eigum við eftir að útfæra með hvaða hætti þjónustan verður innleidd. Ég tel augljóst að það verði gert í skrefum. Síðan má ekki gleyma því að við yfirfærslu málaflokksins um málefni fatlaðra til sveitarfélaganna þá opnast möguleiki á samnýtingu þjónustu heima fyrir í sveitarfélögunum. Það sést í þeim sveitarfélögum sem þegar hafa tekið að sér málaflokkinn sem reynslusveitarfélög, að þessi þáttur hefur komið mjög vel út. Ég nefni sem dæmi sveitarfélagið Hornafjörð og eins Vestmannaeyjabæ þar sem þetta hefur tekist með miklum ágætum. Notendur þjónustunnar hafa verið ánægðir með hvernig sveitarfélögunum hefur lánast að sinna þessum verkefnum.

Það er auðvitað svo að íbúum á hverjum stað finnst gott að geta leitað beint til síns nærsamfélags, beint til sveitarfélagsins varðandi þjónustu. Þess vegna tel ég að þetta sé rétt skref en hins vegar verður að halda vel utan um þetta. Menn þurfa að átta sig á skilgreiningunum og í hverju verkefnin felast nákvæmlega. Jafnframt þarf að undirbúa vel með hvaða hætti á að byggja upp þjónustu þar sem hún hefur ekki verið byggð upp á undanförnum árum en full þörf er á. Ég nefni dæmi eins og t.d. sveitirnar fyrir austan Þjórsá þar sem íbúar hafa sótt mestalla þjónustu sína til Árborgarsvæðisins eða höfuðborgarinnar. Það er í ýmis horn að líta en ég tel að yfirfærslan sé skref í rétta átt. Menn eiga að sjálfsögðu eftir að leggja lokahönd á þá vinnu.

Frú forseti. Við stígum mikilvægt skref í dag til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks og að sjálfsögðu fögnum við því öll sem hér erum. Ég tel að sú vinna sem unnin hefur verið í nefndinni sé til fyrirmyndar og ég hlakka til að sjá þær tillögur sem ráðherra og félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur sumarið til að vinna. Ég mun vonandi geta tekið þátt í að útfæra þær þegar þær verða lagðar fram í þinginu á komandi hausti.