139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:30]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú gjaldtaka sem hefur átt sér stað til Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur staðið undir greiðslum sjóðsins og vel það, í rauninni hefur verið byrjað að safna í sjóð aftur vegna þess að atvinnuleysið hefur sigið niður. Gert er ráð fyrir því í kjarasamningunum að tryggingagjaldið verði lækkað og gert er ráð fyrir því inni í þessu að því ég best veit. Annars vegar er gert ráð fyrir að lækka gjaldið og minnka þannig innstreymið í sjóðinn, hins vegar er líka verið að færa til þannig að Ábyrgðarsjóður launa fær ákveðinn hluta og Fæðingarorlofssjóður fær ákveðinn hluta. Þetta er allt saman tíundað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Þetta kemur sem sagt inn í þann flokk.

Í sambandi við þetta mál er ástæða til að geta þess að það hefur náttúrlega verið til einstakrar fyrirmyndar og mikil gæfa fyrir landið hversu vel atvinnurekendur og aðilar vinnumarkaðarins hafa náð að standa saman um varnirnar gegn atvinnuleysi, hafa komið inn t.d. með menntunarúrræðið sem er fjármagnað að verulegu leyti úr þessum sjóðum, og vinnumarkaðsúrræðin í heild. Þar hefur náðst mjög gott samstarf við stjórn sjóðsins og samstarf við þá aðila. Það finnst mér skipta mjög miklu máli í sambandi við þessar lausnir. Það hefur verið ágreiningur um hlutaatvinnuleysisbætur, hvenær þær eiga að deyja út, hvað eigi að láta þær standa lengi o.s.frv. Við höfum ekki verið tilbúin að fella þær niður meðan við náum ekki atvinnuleysinu enn meira niður og ekki hvað síst að það mun bitna verr á konum en körlum. Ef ég man rétt er u.þ.b. 2/3 af þeim sem eru hlutaatvinnuleysisbótum konur. Þess vegna er tillaga um að framlengja ákvæðið út þetta ár, en um leið er ætlunin að skoða betur hver áhrifin hafa verið af þessari aðgerð sem var sett á í beinu framhaldi af hruninu og hefur gagnast afar vel fyrir mjög marga.