145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér er það rifjað upp að stjórnarflokkarnir hafi ákveðið að stytta kjörtímabilið og sagt að það sé vegna þess að ríkisstjórnin njóti ekki trausts. Það kemur reyndar úr hörðustu átt, frá formanni flokks sem stofnaður var til þess að vera annar tveggja turna í íslenskum stjórnmálum en er sjálfur rúinn trausti í dag.

Staðreyndin er sú að það var kosið um það í vor að tillögu minni hlutans hvort ganga ætti til kosninga. Það var fellt. Í kjölfarið tóku stjórnarflokkarnir sig saman, kynntu áætlun um það hvernig þeir mundu búa um sín helstu áherslumál áður en gengið yrði til kosninga að hausti. Þess vegna störfuðum við langt fram á sumar og þess vegna erum við hér saman komin í ágústmánuði. Við munum á komandi dögum og vikum leggja áherslu á ákveðin grundvallarmál sem ríkisstjórnin hefur unnið að, eru í nefndum þingsins og munu koma fram á næstu dögum. Eitt þeirra var kynnt í dag, annað verður kynnt á morgun. Svo munu dagarnir líða og við munum taka í forgang þau mál sem ríkisstjórnin vill sérstaklega beita sér fyrir.

Hvert hefur verið verkefni þessarar ríkisstjórnar á kjörtímabilinu? Fyrst og fremst þurfti ríkisstjórnin í upphafi að beita sér fyrir því að samfélagið fengi viðspyrnu, að við lokuðum botnlausum fjárlagahalla sem var orðinn viðvarandi vandamál og að heimilin fengju síðan viðspyrnu til að vera alvöruþátttakendur í þessu samfélagi. Það gerðum við á upphafsdögum ríkisstjórnarinnar. Fjárlagagatinu var lokað sem var alger forsenda þess að við gætum hafið uppbyggingarskeið að nýju.

Það er svo sem alveg rétt sem sagt hefur verið, öll hefðum við gjarnan viljað setja meiri fjármuni hér og hvar í velferðarkerfið. Við hefðum svo gjarnan ekki viljað þurfa að glíma við niðurskurðinn á almannatryggingabótunum sem vinstri stjórnin leiddi yfir þá sem á þær þurfa að treysta. Við hefðum helst ekki viljað þurfa að fresta tækjakaupaáætlun o.s.frv. eins og gert hefur verið á undanförnum árum.

Á þessum vanda höfum við verið að taka með þeim hætti að á þessu ári stefnir í að afgangur á ríkisfjármálunum verði meiri en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar frá 2009–2013. Að öllum líkindum verður meiri afgangur á þessu ári en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar. Þetta gefur okkur viðspyrnu og tækifæri til að horfa til framtíðar og spyrja okkur: Hvernig förum við að því að byggja aftur upp betri heilbrigðisþjónustu en við höfum þurft að sætta okkur við á undanförnum árum? Hvernig förum við að því að mæta betur markmiðum okkar gagnvart eldri borgurum, öryrkjum og öðrum þeim sem við erum sammála um að helst þurfi á hjálparhönd að halda? Það birtist í okkar langtímaáætlun.

Hér koma menn upp og segja: Ja, í þessu er ekki neitt. Það stendur ekki til að gera nokkurn skapaðan hlut. Það er þó óvart þannig að í þessari fimm ára áætlun er gert ráð fyrir 10% raunaukningu frumútgjalda ríkisins. Og er það ekki dæmigert fyrir íslenska stjórnmálamenningu að þá segi menn í aðdraganda kosninga: Iss, þetta er ekki neitt. 10% aukning útgjalda ríkisins til heilbrigðis- og velferðarmála, menntamála og samgöngumála, það er nú ekki neitt. Ég skal bjóða betur, ég skal bjóða 20%. (Gripið fram í.) Eða hvað á það að vera? Hversu mikið á það að vera? Er það það sem bíður okkar á síðustu vikunum fyrir kosningar, að fara í loforðakapphlaup um milljarðatugina sem menn ætla að sáldra um samfélagið, langt umfram það sem fram kemur í langtímaáætluninni? Ef menn skoða þetta af yfirvegun og einhverri sanngirni sjá þeir að staðreyndin er sú að það hefur skapast verulegt svigrúm á næstu árum til að gera betur víða í samfélagsþjónustunni. Svo skulum við takast á um það hvernig við ætlum að úthluta, hvernig við ætlum að skipta því. Það að segja að ekki sé gert ráð fyrir auknu útgjaldasvigrúmi í ríksfjármálaáætluninni er hreinn uppspuni og reyndar algjör þvættingur sem stenst enga skoðun.

Menn segja að ríkisstjórnin hafi forgangsraðað í þágu þeirra sem mest hafa milli handanna. Það er líka rangt. Við höfum lækkað tekjuskattinn þannig að þegar við komum til valda var hér miðþrep tekjuskatts sem fellur niður um áramótin. Miðþrepið tók við í 240.000 kr. Við erum búin að fella það út og búin að lækka lægsta þrepið þannig að nú fer fólk á lægsta þrepinu yfir 800.000 kr. Allir undir 800.000 kr. hafa fengið verulega lækkun tekjuskatts frá þessari ríkisstjórn. Svo talið þið um að þetta sé fólkið sem hefur það best. Þetta er fólkið sem þurfti að þola skattahækkun frá vinstri stjórninni.

Menn nefna veiðigjöldin. Staðreyndin er sú að þessi ríkisstjórn hefur tekið á annan tug milljarða í veiðigjöld umfram það sem ríkisstjórn vinstri flokkanna gerði í fjögur ár. Við höfum tekið á annan tug milljarða meira í veiðigjöld en vinstri stjórnin gerði. Við skattlögðum slitabúin og forgangsröðuðum í þágu fyrirtækjanna, sem nú greiða lægra tryggingagjald, og heimilanna. Svona mætti halda áfram.

Nei, það er algjör ágreiningur ef menn vilja fara út í það við stjórnarflokkana að hér hafi verið svigrúm á undanförnum árum til að gera svo miklu meira. Undanfarin þrjú ár hafa farið í að finna viðspyrnuna með því að ljúka slitabúunum, taka á krónuvandanum sem við erum að boða að verði haldið áfram með á þessu þingi og gefa heimilunum viðspyrnu. Já, það er hægt að gera betur í framtíðinni en það er ekki svo að við höfum boðað að svigrúmið verði lítið sem ekkert. Þvert á móti er bjart fram undan fyrir íslenska þjóð, við höfum notið góðs af lágri verðbólgu, kaupmáttur hefur farið vaxandi og við munum halda áfram á þeirri braut.