149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:28]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum hér að afgreiða mál sem hefur verið í vinnslu hjá stjórnvöldum og Alþingi í næstum áratug. Þetta tiltekna mál felur ekki í sér neina grundvallarbreytingu á skipan raforkumála á Íslandi. [Kliður í þingsal.] Stóru breytingarnar voru lögfestar fyrir meira en 15 árum og sumt leiðir beinlínis af aðild okkar að EES-samningnum. Veigamikið atriði þriðja orkupakkans um kerfisáætlun Landsnets hefur þegar verið lögfest. Ísland fékk undanþágu frá öðru veigamiklu atriði varðandi eigendaaðskilnað Landsnets. Eftir standa atriði á borð við aukið sjálfstæði raforkueftirlitsins sem er sjálfsagt og eðlilegt. Umræðan mun að sjálfsögðu halda áfram þannig að þeir sem tala um að það sé mjög vont mál fyrir okkur sem styðjum þetta mál þá er það alls ekki svo, sem betur fer mun umræðan um orkumál halda áfram. Markmið þessa regluverks er frjáls viðskipti neytendum til hagsbóta og mín skoðun er sú að við eigum ekki að hverfa frá því markmiði heldur leita leiða til að ná því enn betur fram.