149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Því var lengi vel haldið fram að innleiðing þriðja orkupakkans hefði í raun nánast engin áhrif á Íslandi en á sama tíma lá fyrir í þinginu þetta frumvarp sem við erum að fara að greiða atkvæði um, frumvarp um að breyta eðli Orkustofnunar og gera hana í raun að landsreglara fyrir Ísland, færa stofnunina undan lýðræðislegu valdi innan lands og láta hana heyra undir ólýðræðislegt, erlent vald í staðinn. Ég hef að undanförnu bent á málaferli Evrópusambandsins gagnvart Belgíu, ekki hvað síst fyrir það að stofna til þessara málaferla, að Belgar þóttu ekki hafa fært sínum landsreglara nógu ótvírætt og mikið vald og vildu sjálfir halda valdinu að einhverju leyti hjá þingi og ríkisstjórn. Svar þeirra sem vilja samþykkja þetta frumvarp um Orkustofnun er að með því göngum við lengra en Belgar. Við ætlum að fara alla leið, verða við kröfu Evrópusambandsins um að íslenski landsreglarinn hafi óskorað vald yfir framkvæmdum í orkumálum og ákvarðanatöku um tengingu landsins (Forseti hringir.) við raforkukerfi Evrópu.