149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka þeim stuðningsmönnum þessa frumvarps sem hafa stigið hér upp til að ræða atkvæðagreiðsluna og útskýra hvað mönnum gengur raunverulega til. Það er sem sagt það að uppfylla kröfur Evrópusambandsins betur en Belgía með því að innleiða að fullu kröfurnar sem Evrópusambandið gerir til landsreglaranna. Hvað felst í þeim kröfum? Á hverju klikkuðu Belgarnir? Hvar gengu þeir ekki nógu langt að mati Evrópusambandsins? Jú, með því að trúa því að þeir gætu, þrátt fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans, skilið eftir vald hjá þingi landsins, hjá kjörnum fulltrúum, yfir framkvæmdum í raforkumálum og skilyrðum fyrir tengingu við raforkukerfi Evrópusambandsins. Nú hafa þó stuðningsmenn þessa máls skýrt það að þetta sé bara gert til að standa við gerða samninga, ef svo má segja, og það eru þá samningar um að taka vald af þessari stofnun og færa það til stofnunar sem lýtur ekki lýðræðislegu valdi.