150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Staðan í heimsfaraldri vegna kórónuveiru er þannig að á heimsvísu eru 24 milljónir manna með þekkt smit og yfir 820.000 manns hafa látið lífið. Á Norðurlöndunum hafa greinst um 125.000 smit og yfir 7.000 manns hafa látist, þar af 5.800 í Svíþjóð. Í langflestum Evrópuríkjum fer smitum fjölgandi. Mörg af okkar helstu viðskiptalöndum hafa átt í miklum erfiðleikum með faraldurinn sem hefur sett mark sitt á vilja fólks til ferðalaga, framleiðslugetu landanna og möguleika þeirra til frumkvæðis í viðskiptum.

Íslensk stjórnvöld hafa haft það sem grunnmarkmið að vernda heilsu fólks og hafa gripið til ráðstafana vegna þeirra efnahagslegu afleiðinga sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér. Aðgerðir og inngrip stjórnvalda hafa öll verið á grundvelli ráðgjafar sérfræðinga en ábyrgðin á ráðstöfununum liggur hjá stjórnvöldum enda allar afleiddar aðgerðir í þeirra höndum. Hér á landi erum við í því sem hefur verið kallað önnur bylgja faraldursins. Það hefur tekist ágætlega að halda utan um hana og smitfjöldi er aðeins um fimmtungur af því sem var í upphafi fyrri bylgjunnar. Aukin þekking á eðli veirunnar hefur gert auðveldara að styðja við þá sem hafa veikst. Heilbrigðiskerfið hefur þrátt fyrir allt ráðið ágætlega við þetta verkefni og allt starfsfólk þess á hrós skilið. Meðan faraldurinn stóð sem hæst urðu mörg verkefni að bíða en starfsemin fer smátt og smátt í eðlilegra horf. Þó er ljóst að meðan enn eru líkur á smitum mun heilbrigðisþjónustan áfram verða í viðbragðsstöðu. Nýir verkferlar hafa mótast. Göngudeildarþjónusta og fjarþjónusta og önnur þjónusta án heimsóknar á starfsstöð hefur eflst. Við höfum séð að öflugt opinbert heilbrigðiskerfi, fjármagnað úr sameiginlegum sjóðum, skiptir gríðarlega miklu máli til að ná stjórn á faraldri eins og þessum. Þá hefur verið eftir því tekið að Íslensk erfðagreining hefur lagt gríðarlega mikið lið og það ber einnig að þakka.

Víða um heim er nú unnið að þróun bóluefna gegn Covid-19. Lokastigstilraunir eru þegar hafnar á nokkrum efnum og samkvæmt bjartsýnustu spám verður efnið komið í notkun öðrum hvorum megin við áramótin. Ég vona að það gangi eftir en íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa þegar tryggt sér aðgang að bóluefnum þegar og ef þau verða til.

Aðgerðir til að sporna við efnahagslegum afleiðingum faraldursins, bæði á heimilin og fyrirtækin í landinu, hafa einnig skipt miklu máli. Hlutabótaleiðin hefur tryggt ráðningarsamband þúsunda einstaklinga og fyrirhuguð lenging á tekjutengingu atvinnuleysisbóta mun tryggja að stærsti hluti þeirra sem hafa misst vinnuna vegna heimsfaraldursins mun fá tekjutengdar atvinnuleysisbætur út þetta ár og í flestum tilfellum fram á næsta ár. Með þeirri aðgerð munum við skapa svigrúm til að meta næstu skref um leið og við tryggjum áfram framfærslu þeirra sem hafa misst vinnuna.

Mikið hefur verið rætt um meinta lokun landamæranna. Ég segi meinta því að landamærin hafa aldrei verið lokuð þótt misstrangar reglur um smitvarnir og sóttkví hafi verið í gildi. Það er mikilvægt að muna að jafnvel þótt engar breytingar hefðu orðið má gera ráð fyrir að tekið hefði að tregðast um straum ferðamanna til landsins, líkt og gerst hefur alls staðar í heiminum, eftir að önnur bylgja faraldursins fór af stað. Nýlegar tölur benda til að ferðaþjónusta á heimsvísu gæti orðið fyrir 78% samdrætti á þessu ári. Þá verður að horfa til þess að með aðgerðunum vinnst ekki aðeins að smitum inn í landið fækkar, eða þau nást áður en þau breiðast út, heldur skapast einnig tækifæri til að losa um hömlur innan lands ef vel gengur. Það mun skipta miklu máli fyrir okkur sem samfélag næstu mánuði ef vel tekst til. Skólar, menningarstarf, íþróttastarf og jafnvel fjölskylduboð og samkvæmi vina verða möguleg og minna þvinguð ef árangur næst innan lands.

Baráttan við faraldurinn hefur verið ein löng óvissuferð. Ekkert okkar hefur áður staðið frammi fyrir sambærilegu verkefni og í slíkum leiðangri er skynsamlegt að stíga eitt skref í einu, horfa þó alltaf fram á við og meta stöðugt afleiðingar þeirra skrefa sem hafa verið stigin. Ástandið kann að vera tímabundið. Í febrúar héldu margir að veiran yrði hjá í vor. Það hefði verið jafnóskynsamlegt þá og nú að spila út öllum úrræðunum á einu bretti vegna þess að við vitum ekki hvað kemur næst. Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir stefnuleysi en stefnan hefur að mínu mati verið skýr frá upphafi, þ.e. að koma okkur sem samfélagi í gegnum þennan faraldur sem minnst sködduðum. Á hverjum tíma hefur enginn vitað hver næstu skref yrðu. Áætlanir eru því háðar óvissu hér eftir sem hingað til.

Að mínu mati hefur það verið eftirtektarvert hve samstarf og vilji innan þings hefur verið mikill til að gera vel og standa saman í gegnum storminn. Ég vona að það haldi áfram þrátt fyrir komandi kosningavetur. Áhrif stjórnarandstöðu á þingmál tengd faraldrinum hafa verið umtalsverð og samstarfið og samtalið í nefndunum hefur skilað góðum niðurstöðum í flestum málum. Óvissan er mikil en við vitum að við eigum samfélag sem byggir á sterkum grunni, innviði sem eru traustir og samhenta þjóð sem vill og ætlar að komast saman í gegnum faraldurinn.