150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:42]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Forseti. Við verðum að læra að lifa með veirunni, sagði sóttvarnalæknir á einum af mörgum upplýsingafundum sem flestir landsmenn hafa væntanlega fylgst með. Sóttvarnalæknir sagði líka að nú væri kominn tími til að stjórnvöld kæmu að þeim ákvörðunum sem taka þarf svo að samfélagið geti áfram virkað. Það er einmitt það sem stjórnvöld verða að gera, þau þurfa að taka ákvarðanir og þar með ábyrgð á ákvörðunum til framtíðar. Óvissan er verst. Flestir vilja festu og fyrirsjáanleika og þá skiptir forysta öllu máli. Aðeins þannig er hægt að byggja traustan grunn, að allir stefni í sömu átt.

Eins og er, er fullkominn skortur á forystu og fyrirsjáanleikinn er enginn. Plástrar eru settir á sem svo ekki halda, engin festa. Sem dæmi kom tvennt fram í fréttum í gær. Hið fyrra var að gefnar voru út leiðbeiningar þess efnis að ferðamenn á leið í sóttkví geti nú farið með rútum eða hópferðabílum frá Keflavíkurflugvelli. Þetta er sett fram þegar ferðamenn eru hættir að koma til landsins, alla vega um einhvern tíma. Hið síðara var svo að það teljist vonbrigði að smit hafi komið fólki í opna skjöldu. Þá var um að ræða vöntun á áætlun um hvernig eigi að mæta börnum í viðkvæmri stöðu vegna lokunar skóla, þeim sömu börnum og þurftu að einangra sig heima hjá sér í vor. Skiljanlega var ekkert plan þá. En núna? Af hverju eru ekki komin fram viðbragðsáætlun? Af hverju kom þetta á óvart? Ég nefni þessi dæmi þar sem við í Miðflokknum lögðum fram tillögur í vor sem snerta sannarlega fjölskyldur og heimili landsins. Markmiðið var að auka lífsgæði og verja lífskjör ásamt því að auka ráðstöfunartekjur sem myndu skila sér í aukinni einkaneyslu og styðja við innlenda framleiðslu og fyrirtæki. Tillögurnar voru settar fram þannig að í þeim fælist fyrirsjáanleiki og festa. Þær voru og eru almennar. Þær gagnast mörgum og í það langan tíma að hægt er að vinna að vandaðri framtíðarsýn samhliða.

Ég óttast að við séum í svikalogni núna, því miður. Því miður mun skellurinn koma og það verður að vera til áætlun um hvernig á að koma til móts við fjölskyldur í landinu. Sú ríkisstjórn sem nú er við völd situr. Það er því kominn tími til fyrir hana að standa upp úr stólunum.