136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- orð þingmanns um framlög til stjórnmálaflokka.

[10:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að jafna stundakennslu við Háskóla Íslands við stjórnarformennsku í N1 en það kemur kannski að því að menn fari að rifja upp hvernig menn sinna þingstörfum (Gripið fram í.) og eru í öðrum störfum með. Sjálfstæðisflokkurinn getur lítið kennt okkur, það er bara þannig. Hann hefur skilið eftir sig sviðna jörð, rjúkandi rúst. Svo kemur hann hér og segir að það ætli einhverjir aðrir að fara að ráðast að heimilunum í landinu. (Gripið fram í.)

Hvernig er komið fyrir heimilunum í landinu? Sjálfstæðisflokkurinn lætur eins og hann sé fæddur í gær, alla vega eins og hann hafi ekki komið að stjórnmálum fyrr en eftir 1. febrúar sl. Hér töluðu bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins í gær um það … (Gripið fram í.) Ég ætla að biðja hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur um að leyfa mér að klára. Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hjóluðu sig upp í það í gær að allt í einu væri orðið eitthvert gengisfall. (Gripið fram í.) Má ég minna Sjálfstæðisflokkinn á að þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sagði fyrir réttu ári síðan, þegar hann stóð frammi fyrir 30% gengisfalli á íslensku krónunni, að botninum væri náð. En það var sko aldeilis ekki svo. (Gripið fram í.) Það tók við önnur dýfa og við ætlum að reyna að koma í veg fyrir að það komi enn önnur verri dýfa eftir þessar kosningar með því að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Við ætlum að verja heimilin í landinu, við ætlum að jafna kjörin (Gripið fram í: Hækka skattana.) og við ætlum að verja störfin (Gripið fram í: Hækka skattana.) í þessu landi. (Gripið fram í.)

Það er ekkert sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins geta kennt okkur í (Gripið fram í.) því vegna þess að þeirra leiðir (Gripið fram í: Hækka skattana …) hafa fallið á prófinu. (Gripið fram í: Hækka skattana og lækka launin.)