136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[15:43]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú er það svo að eitt af því fáa sem ég get ekki lært af Jóni Magnússyni er um George Orwell, þann ágæta enska rithöfund, sem var m.a. stríðsmaður á Spáni í borgarastyrjöldinni og studdi þar hreyfinguna PUM, sem var trotskíistahreyfing, og kynntist þar aðferðum Stalíns og kumpána hans og skrifaði síðan sín frægu verk 1984 og Dýrabæinn á undan, þannig að ég held að við skulum láta því lokið.

Það sem þingmaðurinn gerði hér hins vegar var það í raun og veru að hann líkti Katrínu Jakobsdóttur, hæstv. menntamálaráðherra, við félaga Napóleon og listamönnunum sem eiga að fá þessi laun, eða a.m.k. aukninguna, við svínin í Dýrabænum. Ef mönnum finnst það smekklegt hafa þeir öðruvísi smekk en ég. Ég þarf ekki meira um það að segja.

Ég vil hins vegar endurtaka spurningar mínar til hv. þm. Jóns Magnússonar. Önnur var um það þegar hann talaði um að hér væru hækkuð laun listamanna. Ég fékk henni ekki svarað en það var auðvitað svokölluð retórísk spurning, þ.e. málrófsspurning, vegna þess að hér eru ekki hækkuð laun listamanna, þeim er fjölgað. Það er fjölgað um, hvað er það — (Gripið fram í.) ég man ekki hvað mikið, fyrirgefið, en laun þeirra eru ekki hækkuð, sem ég teldi nú hafa átt að gera en þeim er breytt með þeim hætti að sett er föst tala, 266.737 kr., sem eru heildarlaun, verktakalaun svokölluð, eða a.m.k. jafnandi við það og er nú ekki ýkja hátt, það er um það bil þriðjungur eða fjórðungur af því sem hv. þingmaður fær í laun á hverjum mánuði.

Hin spurningin sem ég ætlast til að hv. þingmaður svari er: Talar hann fyrir munn Sjálfstæðisflokksins? Talaði Pétur H. Blöndal fyrir munn Sjálfstæðisflokksins og tala hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir fyrir munn Sjálfstæðisflokksins í afstöðu sinni til þessa máls? Það er gott að það liggi fyrir áður en kjördagur rennur upp.