136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:37]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek auðmjúkur og bljúgur við leiðbeiningum hv. þm. Sturlu Böðvarssonar um ávörp í fundarsal og hegðun í þingsal. Hinn snotri og geðprúði þingmaður hefur sýnt fordæmi í því efni sem okkur minni spámönnum ber að fara eftir.

Hann svaraði hins vegar ekki þeim spurningum sem að honum var beint. Þær voru þessar: Er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins einhuga í andstöðu sinni við það frumvarp sem hér er flutt um fjölgun listamannalauna, óbreytta upphæð, því miður, á hvern mánuð í fyrsta sinn í þrettán ár frá árinu 1996? Hann svaraði því ekki.

Hann kom hins vegar með athugasemdir um fjármögnun málsins og auðvitað eiga þær rétt á sér en þetta er nú ekki í fyrsta sinn, forseti, sem menn hafa samþykkt til bráðabirgða fjármögnun á fyrsta og öðru ári eins og hér háttar til á þörfu verkefni. Og allra síst er hægt að ráðast á það nú vegna þess að eins og atvinnumarkaðnum er háttað er í raun og veru í heildarsamhenginu verið að flytja til fjármuni. Þeir 33,3 listamenn eða sem því nemur í mánaðarlaunum hefðu ella verið á launum annars staðar eða gengið atvinnulausir. Það verkefni sem við eigum fram undan hér á næstunni er að greiða atvinnulausum för, að grynnka á þeim hópi og auðvitað að lokum að skapa störf fyrir þá. Eitt af því sem fleiri listamannalaunamánuðir gera er einmitt það að vera uppspretta annarra starfa. Því að það er eins með sprotafyrirtækin og listirnar að í kringum það verða til afleidd störf og verðmæti sem við vitum ekki hver eru fyrir.

Ég spyr aftur og vil fá svar núna: Er þingflokkur sjálfstæðismanna einhuga í því að (Forseti hringir.) leggjast gegn þessu máli? Og ég spyr af tiltekinni ástæðu, forseti.