138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

tjón ferðaþjónustunnar vegna hrossapestar.

[11:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að öllum er ljóst að hér er um að ræða tilfinnanlegt tjón sem hleypur á verulegum fjárhæðum einfaldlega vegna þess að þetta er mjög stór atburður. Lagt er í heilmikinn kostnað til undirbúnings mótshaldinu og síðan er náttúrlega ekki sýnt hvernig mönnum gengur að selja í það gistirými sem hafði verið bókað og tekið frá fyrir mótshaldið og þar fram eftir götunum.

Hins vegar er það því miður þannig að fjölmargir aðilar hafa orðið fyrir tjóni af margvíslegu tagi sem er sýnilegt og sannanlegt en það er hægara um að tala en úr að ráða að bæta það með beinum hætti og hvernig ríkið dregur mörkin í þeim efnum þegar svona aðstæður koma upp er einnig mjög vandasamt. Þá þarf að horfa til jafnræðis gagnvart öðrum aðilum sem af ýmsum mismunandi ástæðum hafa orðið fyrir tjóni vegna atburða sem hér hafa orðið síðastliðin tvö ár o.s.frv. En það er rétt og skylt og sjálfsagt að fara yfir málið, ræða það við þá sem í hlut eiga og það mun ekki standa á okkur að gera það.