138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[17:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit frá hv. félags- og tryggingamálanefnd sem ég sit í. Það fjallar um atvinnuleysistryggingar og ýmsar breytingar sem á þeim eru gerðar og lög um húsaleigubætur. Ég ætla að byrja á því að ræða um húsaleigubætur, sérstaklega um séreignarsparnaðinn.

Séreignarsparnaðurinn er ekki þvingaður sparnaður. Hann er frjáls sparnaður þar sem þeir sem vilja geta tekið þátt í því og fengið framlag frá atvinnurekanda og skattaívilnun, en þetta er frjáls sparnaður. Sem slíkur á hann aldrei að teljast sem tekjur. Maðurinn við hliðina, sem fór ekki sömu sparnaðarleið og sá sem fór í séreignarsparnaðinn, á ekkert að vera betur settur þótt hann fari í frjálsan sparnað, hafi bara lagt inn í banka. Ég held að það sem veldur misskilningi sé að það eru margir lífeyrissjóðir, reyndar fleiri en bara lífeyrissjóðir, sem sjá um rekstur séreignarsparnaðarins. Þess vegna er litið á þetta sem lífeyri, tekjur í þeim skilningi þegar menn tala um atvinnuleysisbætur, húsaleigubætur, bætur Tryggingastofnunar o.s.frv. Þar er reyndar búið að laga þetta en séreignarsparnaðurinn hefur það umfram t.d. bætur úr lífeyrissjóði að menn eiga að borga í lífeyrissjóð, hvort sem þeir vilja eða ekki. Það er skylda og með skyldunni er ríkið búið að skilgreina það sem kemur út úr lífeyrissjóðunum sem tekjur, en séreignarsparnaðurinn er bara ekki þannig. Eina sem séreignarsparnaðurinn hefur umfram almennan sparnað er að fresta skattlagningu og borga síðan skatt líka á vexti þegar hann er tekinn út. Í sjálfu sér ætti hvergi að líta á þetta sem tekjur. Ég held að það væri ráð að nefndasvið Alþingis færi í gegnum lagasafnið og kannaði hvar séreignarsparnaðurinn gæti hugsanlega komið víðar við sem skerðing á bótum vegna þess að hann er metinn sem tekjur en ekki eins og hann er, úttekt á sparnaði.

Síðan er hér rætt um hlutfallslegar atvinnuleysisbætur. Mér finnst vanta dálítið í nefndarálitið hvað þetta er í rauninni merkilegt fyrirbæri, ég hefði svo sem getað bætt því inn. Nú skulum við hugsa okkur þá stöðu að fyrirtæki sé með tíu starfsmenn. Vegna slæmrar fjárhagsstöðu verður það að spara 10% af kostnaði. Það gæti alveg sagt upp einum manni sem fer þá bara, öll hans reynsla og þekking og tengsl við fyrirtækið hverfa. Eða það gæti minnkað vinnu allra starfsmanna um 10%. Þá vinna menn kannski ekki annan hvern mánudag eða eitthvað slíkt. Það eru þá 10% af tíu dögum á tveim vikum, ef menn vinna ekki annan hvern mánudag eða annan hvern miðvikudag eða eitthvað slíkt, er það ígildi þess að vera sagt upp 10%. Þegar mönnum er sagt upp 10%, viðhelst þekking þeirra í fyrirtækinu, tengsl þessa sem er 10% atvinnulaus helst við vinnumarkaðinn, þau rofna ekki heldur hefur maðurinn hlutverk, hann hefur verkefni og þau breytast í sjálfu sér ekkert voðalega mikið. Reyndar breytist heilmikið hjá þeim sem sagt er upp kannski 50% en engu að síður hefur hann ákveðið hlutverk, hann hefur ákveðin tengsl og hann er virkur í vinnu.

Þess vegna held ég að þetta sé mjög mikilvægt atriði, vegna þess að rannsóknir hafa sýnt það að fólk sem er atvinnulaust lengi, lengur en sex mánuði, er komið í stórhættu og ég ætla nú að biðja Vinnumálastofnun að átta sig á því. Ég segi stórhættu, vegna þess að rannsóknir hafa sýnt að það eru 80% líkur á því að það fari aldrei aftur að vinna. Hljómar mjög hastarlega, en menn ættu nú hreinlega að líta á þá sem eru atvinnulausir lengi, hvað margir þeirra ráða við það að fara aftur í vinnu. Það verður nefnilega ákveðið niðurbrot á sjálfsvirðingu manna þegar þeir eru lengi án vinnu og þess vegna er mjög mikilvægt að menn haldi tengslum við vinnumarkaðinn.

Það sem við ættum að gera númer eitt, tvö og þrjú, frú forseti, í þessu atvinnuleysi sem við búum við núna, er að berjast gegn langtímaatvinnuleysi. Sálfræðilega er það í lagi að menn séu atvinnulausir í tvo, þrjá mánuði, það er þó engan veginn æskilegt. En þegar menn eru búnir að vera atvinnulausir í eitt eða tvö ár er mikil hætta á ferðum.

Ég hlustaði af tilviljun á útvarpið á sunnudagsmorgun, þ.e. í gærmorgun. Þar kom fram mjög merkileg reynslusaga. Kona sem er þroskaþjálfi og kennari er búin að vera atvinnulaus í eitt ár. Hún var nú fyrst alveg steinhissa á því að hún skyldi ekki fá vinnu, en ég hugsa að mjög margir séu í þeirri stöðu í dag. Það sem vakti athygli mína var það að hún sótti um mjög víða, var rösk í því en hún fékk engin svör. Það voru bara örfáir sem svöruðu atvinnuumsóknum.

Frú forseti. Svo er það annað. Ég hef áður rætt um þetta í þessum ræðustól, hvort þurfi að setja lög um það að fyrirtæki skuli svara atvinnuumsóknum. Ég vona ekki. Ég vona að við þurfum ekki að hafa þá forsjárhyggju til að menn sýni almenna kurteisi. En það sem gerist nefnilega, og ég held að fyrirtæki ættu virkilega að átta sig á því, er ákveðið niðurbrot þegar mönnum er ekki einu sinni sýnd sú virðing að svara atvinnuumsóknum. Fyrirtæki sem auglýsir eftir manneskju í starf og einhver leggur á sig að sækja um, hann á heimtingu á því og rétt að honum sé svarað, að hann sé látinn vita. Örstutt bréf nægir sem tilkynnir honum „að við erum búin að ráða í starfið sem þér sóttuð um og þökkum yður áhugann á starfinu“. Meira þarf það nú ekki að vera. En það er þá ákveðið og þá er búið að loka því dæmi. Þá er búið að sýna manninum þá virðingu að svara og hann bíður ekki í ofvæni í margar vikur eftir svari. Þetta er mjög niðurdrepandi og ég skil ekki af hverju fyrirtæki svara ekki starfsumsóknum.

Hinum megin erum við með atvinnulaust fólk sem sækir og sækir um og veit ekkert hvað er að gerast. Ég vil nú að fyrirtækin taki sér tak og hvert einasta þeirra svari. Öryrkjar hafa líka sagt mér að það sé mjög niðurdrepandi þegar þeir reyna aftur og aftur að sækja um vinnu. Ég hef talað við marga öryrkja sem vilja fá vinnu, mjög marga.

Það var annað sem kom fram í þættinum í gær sem fjallaði um sama mál. Kona nokkur sem er leikskólastjóri sagði frá því að hún þurfti að ráða þrjá starfsmenn því að þrjár konur áttu von á barni. Hún hringdi niður í Vinnumálastofnun og þar virtist enginn hafa átt von á því að einhver mundi biðja um fólk í vinnu. Hún lýsti því skemmtilega: Það er eins og þú hringir í eitthvert símanúmer og krakkinn svarar í símann og segir: Mamma, hvað á ég að segja? Þannig var viðhorfið hjá Vinnumálastofnun þegar atvinnurekandi óskaði eftir því að fá fólk í vinnu. Það var bara ekkert inni í kerfinu. Ég er ansi hræddur um það og hef bent á það áður að hv. félagsmálanefnd ætti — hér situr nú formaðurinn — virkilega að taka sér tak og ræða þetta. Fá fólk frá Vinnumálastofnun til sín og spyrja: „Hvað miðlið þið mörgu fólki?“ Hvað er mikið miðlað? Það er hlutverk stofnunarinnar að miðla fólki, ekki bara borga því út bætur. Það virðist vera að allur krafturinn fari í það að borga út bætur, borga út peninga. En þegar fyrirtæki vantar fólk til starfa þá gerist ekki neitt, það er bara ekki gert ráð fyrir því.

Annaðhvort stóreflum við einkastofur sem vinnumiðlanir, sem ég væri náttúrlega hlynntari, eða að þessi stofnun rís undir því nafni að vera vinnumiðlari. Samkvæmt lögum á hún að vera það, ég veit ekki betur. Það á ekki að gerast að vinnuveitandi sem vantar fólk í vinnu, þó að það sé ekki nema í þrjá mánuði í afleysingu vegna fæðingarorlofs, fái ekki aðstoð. Það verður að vera til eitthvert kerfi sem tekur við fólki. Segjum að hér séu 10 þúsund manns að leita að vinnu. Það er vel hugsanlegt að einhver þeirra vilji fara í þrjá mánuði á leikskóla, sem ég held að sé afskaplega skemmtilegt starf og reyndar dálítið hvetjandi.

Ég vildi nú koma þessu að hérna af því ég hlustaði á þetta af tilviljun í gær. Ég hef svo sem nefnt þetta áður að fá engin svör og ég veit ekki hvort hv. félagsmálanefnd eigi að ræða það sérstaklega í sínum ranni hvort virkilega þurfi að setja lög um almenna kurteisi, þ.e. að menn svari bréfum, svari því þegar brugðist er við auglýsingu þar sem auglýst er eftir fólki til starfa. Auðvitað á það að vera þannig að menn bregðist við og svari slíku, annaðhvort með tölvupósti, símtali eða þá með einföldu bréfi.

Síðan er þetta með miðlunarþátt Vinnumálastofnunar. Svo vil ég endilega að menn styðji þessar hluta atvinnuleysisbætur, þó að þær séu hugsanlega misnotaðar. Því miður eru töluvert miklar líkur á að þær séu misnotaðar. Ég vil nú bara skora á fólk sem hefur virkilega geð í sér í núverandi stöðu til þess að misnota bótakerfin, að hætta því bara sem fyrst.