139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

828. mál
[15:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að þakka kærlega fyrir að frumvarp um framlengingu á þessum ákvæðum sé komið fram. Þær aðstæður sem bændur undir Eyjafjöllum hafa verið að fást við sem hluta af afleiðingum eldgossins hafa verið gífurlega erfiðar. Stutt er síðan við þingmenn Suðurkjördæmis ásamt nefndarmönnum allsherjarnefndar og heilbrigðisnefndar fórum í heimsókn þangað og hittum sveitarstjórnarmenn og löggæslumenn á svæðinu ásamt því að fara um svæðið til að sjá hversu erfiðar þessar aðstæður eru í raun. Það eru sérstaklega þrír bæir sem spurning er um hvort hægt sé að búa á til framtíðar eða ekki. Það getur verið mjög stór og mikil ákvörðun að taka fyrir fólk sem hefur búið þarna alla ævi og fjölskyldan — þetta eru jafnvel ættarjarðir sem fólk hefur búið á árum, áratugum, jafnvel árhundruðum saman — að horfast í augu við að hugsanlega sé ekki hægt að halda þar áfram búskap. Hér er verið að gefa fólki ákveðið svigrúm til að sjá hvernig hlutirnir muni þróast.

Fram kom að á Eyjafjallajökli er enn gífurlegt gosefni sem á eftir að koma þarna niður. Menn höfðu áhyggjur bæði af leysingum í vor en ekki hvað síst rigningum í haust þar sem árnar þarna, þær fjórar ár sem eru á þessu svæði, yrðu jafnvel orðnar hærri en landið í kring. Eitt af því sem ég held að sé mjög mikilvægt er að við þingmenn veltum fyrir okkur, ekki bara að leggja til þessa framlengingu á beingreiðslunum, heldur hvað við getum gert til að aðstoða fólk ef það tekur þá ákvörðun að halda ekki áfram búskap, hvernig við ætlum að bregðast við varðandi þær jarðir sem er hugsanlega ekki hægt að búa áfram á, sem yrði þá grundvöllur þeirrar ákvörðunar.

Þetta er gott mál og ég vona svo sannarlega að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vinni það hratt og vel og við getum afgreitt það eftir að nefndadögum lýkur.