145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

skuldaleiðrétting og lækkun vaxtabóta.

[15:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra telur að leiðréttingin svokallaða hafi tekist vel þó að það sé svo að þeir sem koma betur út úr fyrri kerfisbreytingu ríkisstjórnarinnar, þ.e. lækkun vaxtabóta á móti sérstakri niðurfærslu, eru þau heimili sem áttu ekki rétt á vaxtabótum vegna mikilla eigna og hárra tekna. Ríkisstjórnin lagði því allt kapp á að nýta almannafé til að lækka skuldir auðugasta fólksins í landinu. Hinir tekjulægri og eignalitlu sitja hins vegar uppi í verri stöðu og staðreyndin er sú að fyrir það fólk hefði verið miklu betra ef ríkisstjórnin hefði engu lofað og ekki reynt að standa við neitt af því sem Framsóknarflokkurinn lofaði fyrir síðustu kosningar.

Finnst hæstv. forsætisráðherra þetta ásættanleg staða? Hvernig breyta loforðin sem gefin voru í dag stöðu fólksins sem varð fyrir barðinu á hinni svokölluðu leiðréttingu?