149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég greiði atkvæði með málinu. Það er búið að segja allt sem segja þarf um málið efnislega en í framhaldinu finnst mér að við þurfum að hafa í huga á hinu háa Alþingi ákall þjóðarinnar frá árinu 2012 um nýja stjórnarskrá þar sem tekist er á við nákvæmlega allar áhyggjurnar sem fólk hefur lýst yfir í þessu máli, hvort sem það varðar fullveldi þjóðarinnar, þjóðaratkvæðagreiðslur, þjóðareign á auðlindum eða stjórnarskrársamræmi löggjafar sem við samþykkjum hér. Þetta er allt þarna. Það er ekki í þriðja orkupakkanum. Þetta er í nýrri stjórnarskrá. Einbeitum okkur héðan í frá að því sem skiptir máli sem er ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Þær áhyggjur sem ég nefndi eru ekki rökréttar gagnvart þriðja orkupakkanum þegar betur er að gáð. Ég ber fulla virðingu fyrir því að fólk hafi áhyggjur af því en ég sé misræmi milli þess sem fólk segir um þriðja orkupakkann og þess sem ég las í honum sjálfum.

Ég greiði atkvæði með þessum pakka og mun standa með þeirri ákvörðun það sem eftir er.