149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér finnst áhugavert að fylgjast með hvernig málflutningurinn breytist. Núna er vandinn sá að Orkustofnun verði of sjálfstæð, ekki það að hún verði hluti af Evrópusambandinu eða að Evrópusambandið komi með einhverja stofnun hingað heldur eigum við núna að vera ægilega hrædd við að Orkustofnun verði sjálfstæðari í störfum sínum. Æ, nei, hvílíkt fullveldisframsal — eða hitt þó heldur. [Hlátur í þingsal.]

Ítrekað er minnst á málið gegn Belgíu. Auðvitað eigum við að standa við þær skuldbindingar sem við samþykkjum að gera. Það eru ekki fréttir að samningum sé framfylgt, að alþjóðasamningum sé framfylgt að alþjóðarétti. Það eru ekki fréttir. Það er ekki ógn. Það er nokkuð sem við viljum sjálf hafa til staðar. Ef ske kynni að einhver annar bryti á samningum við okkur eru til leiðir til að leysa úr slíkum ágreiningi og þess vegna eru t.d. til þessar leiðir núna gegn Belgíu. Ég vil bara taka það fram af því að Belgía er oft nefnd að það sem Belgía gerði ekki er það sem við erum að gera hér. Varla fer ESA að vera leiðinleg við okkur yfir því, er það? Nei, það eina sem finnst í þessari orðræðu er það að ef fólk stendur ekki við samninga sína eru eðlilega afleiðingar af því. (Forseti hringir.) Það eru ekki fréttir, virðulegi forseti, það er eðlilegt og þannig ættum við að vilja hafa það vegna hagsmuna okkar, réttinda og fullveldis.