149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þeim sem hafa áhyggjur af þessu frumvarpi bendi ég á að horfa á það sem er í boði. Ef nýja stjórnarskráin væri komin gætu 10% þjóðarinnar kallað málið til sín. Það sem við sjáum í heildarorkupakkamálinu er að í dag hafa um 7% þjóðarinnar skrifað undir það að vilja ekki láta samþykkja það. Þau 17.000 eða 16.000 manns ættu að horfa til þess hvað er í boði núna á þessu kjörtímabili samkvæmt stjórnarsáttmálanum, samkvæmt starfshópi á forræði hæstv. forsætisráðherra sem allir flokkar eiga aðild að, líka fulltrúar Miðflokksins. Þar hefur hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson setið, hv. þm. Bergþór Ólason kemur stundum í hans stað ef hann forfallast. Það er í boði á þessu kjörtímabili, fyrir lok kjörtímabilsins, að þjóðin sjálf geti kallað til sín frumvörp sem Alþingi samþykkir. Þetta er það sem við eigum að horfa til. Ef við værum búin að innleiða þetta væri þriðji orkupakkinn ekki það vandamál sem hann er. Hann skapaði ekki þennan klofning. Þjóðin myndi geta kallað málið til sín.