149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[12:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þessi atkvæðatafla er hið merkilegasta mál. Ég vil bara vekja athygli á því að síðasti málsliður tillögunnar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skal liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar og framkvæmda vegna hennar.“

Ef maður tæki undir þann málflutning að hægt væri að kæra Íslendinga einhvern veginn til að leggja sæstreng þá væri það auðvitað samkvæmt ákvörðun Orkustofnunar. Sá málflutningur er vitleysa að mínu mati og allra sem ég veit um sem hafa kynnt sér málið nógu vel. En segjum sem svo að það yrði kært þá yrði það vegna þess að það væri ákvörðun Orkustofnunar sem væri kærð. Það er ekkert í þriðja orkupakkanum sem varðar ákvarðanir annarra stofnana þannig að hér eru settar inn fleiri stofnanir. Þetta væru meiri varnir fyrir Ísland ef sá rökstuðningur héldi vatni að hægt væri að kæra okkur til að neyða okkur til að leggja sæstreng. Þannig að fólk sem er hrætt við sæstreng og tekur alvarlega málflutning Miðflokksins ætti að greiða atkvæði með þessari tillögu. Í ljósi þess er atkvæðataflan mjög áhugaverð eins og hún stendur núna.