136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar.

[10:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Sjálfstæðisflokknum er mikil vorkunn um þessar mundir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið uppvís að því að stunda spillingu og taka við háum greiðslum frá fyrirtækjum, (Gripið fram í: Segðu …) væntanlega fyrir pólitískan velvilja eða í öðrum málum (GMJ: Nota rétt orð.) og hann hefur ákveðið að snúa vörn í sókn með því að bera öðrum á brýn alls konar hluti sem eru staðlausir stafir. [Háreysti í þingsal.] Hér segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að helsta kosningastefnumál Vinstri grænna sé að standa að launalækkun og skattahækkun. (ÓN: Já.) Þetta er ósatt, (ÓN: Nei.) þetta er lygi (ÓN: Nei.) og Sjálfstæðisflokkurinn ætti, (Gripið fram í: Þetta er kjarni málsins.) ef hann ætlar að hafa einhverja sjálfsvirðingu, (Gripið fram í.) að hlusta á það sem sagt er. (Gripið fram í.) Það sem við höfum sagt er að það er búið að leggja auknar byrðar á almenning í landinu og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem að sjálfsögðu hefur gert það. Það á ekkert að auka byrðarnar. Það að mæta þessum byrðum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt á þjóðina (Gripið fram í.) og ég ætla að biðja þennan hv. þingmann að hafa sig rólegan, herra forseti. Það sem við höfum sagt er að taka þarf til eftir Sjálfstæðisflokkinn. (Gripið fram í.) Það er eins og í leikritinu um Kardimommubæinn, Soffía frænka er komin til að taka til eftir ræningjana. Það er það sem þarf að gera.

Við höfum einfaldlega sagt að við ætlum að segja þjóðinni satt. Sjálfstæðisflokkurinn segir, hv. þingmaður, að nú séu menn að sýna sitt rétta andlit. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að vera með grímuna fyrir andlitinu. Hann ætlar að halda áfram að segja þjóðinni ósatt og koma aftan að kjósendum eins og hann hefur gert til þessa. Við segjum einfaldlega: Það þarf að takast á við þessar auknu byrðar. Það munu allir þurfa að taka eitthvað á sig. (Forseti hringir.) Almennt launafólk hefur tekið á sig launalækkun nú þegar. Það munu fleiri þurfa að gera. Það mun þurfa að auka tekjur ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur engin svör um það hvernig hann ætlar að standa að málum.