136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar.

[10:36]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég kem upp út af öðru máli, út af yfirlýsingum hæstv. heilbrigðisráðherra í gær á fundi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu sem ekki er hægt að túlka með öðrum hætti en sem árás á lækna landsins og aðra heilbrigðisstarfsmenn. Það var haft eftir honum að ávísanakerfi í heilbrigðisþjónustu, þ.e. að greiðsla fylgi sjúklingi, mundi leiða til þess að læknar færu að meðhöndla sjúklinga gegn meinum sem ekki væru til staðar. Dæmið sem hæstv. heilbrigðisráðherra tók var einhvern veginn á þann veg að ef fjármagn fylgi sjúklingum og sjúklingur fengi að velja lækni þýddi það að ef hann færi með 10.000 kall til sérfræðings á Akranesi út af eyranu sínu og sérfræðingurinn fyndi ekkert að eyranu mundi hann samt finna eitthvað að því eða í einhverju öðru líffæri til að ná í peninginn, það gerðu fjárvana stofnanir. Hér er hæstv. ráðherra ekki að tala um neina framtíðarmúsík, eitthvað sem gæti gerst ef ávísanakerfi yrði komið á. Ávísanakerfi er til staðar í dag í samningum við lækna og aðrar heilbrigðisstéttir gegnum sjúkratryggingar. Það hefur verið við lýði um áratugaskeið. Ávísanakerfið er með öðrum orðum það að greitt er fyrir hverja meðferð eða aðgerð sem sjúklingur gengur í gegnum.

Hæstv. heilbrigðisráðherra vegur með orðum sínum að að heiðri lækna og annarra heilbrigðisstétta þegar hann heldur því fram að þeir veiti ónauðsynlega meðferð, geri aðgerðir eða veiti meðferð sem ekki er þörf á til þess eins að fá greiðslu í hús, hvort heldur í eigin vasa eða viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Þessar ásakanir eru fáheyrðar og fordæmalausar og það er mikill óróleiki meðal heilbrigðisstétta vegna þessa. Þegar þær koma þar að auki í kjölfar yfirlýsingar forustumanna Vinstri grænna um launalækkun hjá opinberum starfsmönnum sem BHM og BSRB hafa þegar mótmælt hljóta heilbrigðisstarfsmenn sem eru þúsundir talsins að staldra við.

Ég spyr því hv. þm. Þuríði Backman um óviðurkvæmilegar ásakanir hæstv. heilbrigðisráðherra í garð fagmenntaðra heilbrigðisstarfsmanna og hvað þær segja um viðhorf Vinstri grænna til þessa stóra hóps opinberra starfsmanna. (Gripið fram í.)