136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[12:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi sjúkrahúsin á Suðurlandi og í Reykjanesbæ þá stóð til að leggja af fæðingaraðstoð í þeim bæjum einfaldlega af því að þær hefðu ekki bakhjarl skurðstofa. Þetta var hugsunin sem átti að framfylgja og Sunnlendingar mótmæltu mjög ákveðið. Sveitarstjórnarfólk, grasrótarsamtök, kvenfélagasamband Suðurlands, svo dæmi séu tekin. Það var hlustað á þessar raddir og það voru fundnar aðrar leiðir og það var gert í samráði við þessa aðila og ég er að vonast til að góð sátt hafi náðst.

Hins vegar er alls staðar í heilbrigðiskerfinu kveðið á um sumarleyfi í samningum fólks. Það eru lokanir og það er dregið úr þjónustu tímabundið yfir sumartímann eins og alltaf hefur verið gert. Í bland vegna þess að það er ekki hægt að fá fólk til starfanna. Þá er þetta gert í samvinnu og góðu samstarfi milli sjúkrahúsanna þannig að öryggis sjúklinganna sé gætt og þeir fái þá bestu þjónustu sem völ er á. Þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt. Þetta er nokkuð sem hefur verið við lýði og ræðst m.a. af samningsbundnum kjörum fólks.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt að ýta undir misskilning varðandi ummæli um kjarajöfnun. Ég get glatt hv. þingmann með því að ég hef átt ágæta fundi með trúnaðarmönnum BHM í morgun þar sem misskilningur sem kann að hafa verið uppi hefur verið leiðréttur. Því var tekið afskaplega vel af hálfu þeirra sem þar voru.

Hv. þm. Ásta Möller verður ekki sökuð um hógværð í sjálfsmati þegar hún segist tala fyrir alla lækna í landinu og allar heilbrigðisstéttir, (Forseti hringir.) þar sem mat þeirra er að ég hefði verið að væna þessar stéttir um vinnusvik. Því bara fer fjarri að (Forseti hringir.) slíkt hafi vakað fyrir mér. (Forseti hringir.) Ég hef lagt mig eftir því (Forseti hringir.) og mun gera það, að eiga (Forseti hringir.) sem allra best (Forseti hringir.) samstarf við þessar stéttir (Forseti hringir.) sem ég ber fullt traust til.