138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:57]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir að forseti hafi áður haft sérstakar skoðanir á því hvernig andsvör eru almennt hjá þingmönnum, þau eru margs konar. Hvað sem því líður er hv. þm. Pétur Blöndal að velta því fyrir sér hvað þetta þýði og hv. þingmaður er bara ekki einn um það. Menn hafa verið að velta því fyrir sér hvort það séu of ströng skilyrði varðandi skipurit í lögum því að sama krafa er gerð til þess hvort sem stofnanir eru litlar eða stórar. Menn hafa talið að það sé ekki í samræmi við það sem gerist annars staðar, í löndum sem við berum okkur saman við. Það eru hins vegar allir sammála um að það er mjög mikið atriði að fagleg vinnubrögð séu höfð í heiðri. Það er stóra einstaka málið. Forsvarsmenn stofnana og ýmsir aðrir hafa hins vegar talið að þetta væri ekki endilega leið til þess og menn væru að ganga of langt. Það er væntanlega þess vegna sem þetta frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra kemur fram.

Í örstuttu máli er bitið í frumvarpinu tekið út en menn segja að þetta sé gert til að hægt sé að sameina heilsugæslustöðvar í Reykjavík. Nú geta menn haft sínar skoðanir á því hvort það var hægt fyrir eða eftir, það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að menn taka ekki faglega eða efnislega á þessu máli varðandi skipurit heilbrigðisstofnana að öðru leyti en því að taka bara út bitið — menn geta kallað það það — í frumvarpi ráðherrans. Þetta er bara eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að líta á núna, hvernig ætlum við að sjá heilbrigðisstofnanirnar. Flestir eru á því að þær séu of margar og of litlar og að við (Forseti hringir.) gætum haldið uppi þjónustunni með því að taka á yfirstjórnarmálum. En hér er þingið í það minnsta ekki að einfalda það að lagt verði af stað í þá vegferð.