138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[16:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hef hins vegar nokkrar athugasemdir við það sem kom fram í þessari stuttu ræðu, sérstaklega fullyrðinguna um að ef ekki hefði komið til ríkisábyrgð á innstæðum hefði ekki verið nauðsynlegt að gefa út þetta skuldabréf. Ég mótmæli því algjörlega. Eins og ég hef skilið þetta er í rauninni ákvörðunin um að byggja nýja bankakerfið upp á innlendum útlánum ástæðan fyrir því að það þarf að gefa út þetta skuldabréf. Ef byggt hefði verið á þeirri forsendu að búa til bankakerfi sem samsvaraði innlánum hefði aldrei verið nauðsynlegt að gefa út þetta skuldabréf og þá hefðu bara verið skildar eftir í gamla Landsbankanum eignir sem voru umfram sem eru samkvæmt þessu skuldabréfi 300–400 milljarðar kr. þegar þær hafa verið reiknaðar upp.

Hins vegar óskaði ég sérstaklega eftir því í meðferð nefndarinnar milli 2. og 3. umr. að fá upplýsingar um þetta skuldabréf. Því miður urðu hvorki samningsaðilar né formaður nefndarinnar, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, við þeirri beiðni minni heldur aðeins þeim búti sem varðaði nákvæmlega ákvæði þessa frumvarps. Því er ansi sláandi að lesa á síðum Morgunblaðsins að þetta skuldabréf sé með svokallaða veðsetningarþekju upp á 127,5%. Þetta jafngildir veðsetningu helmings eigin fjár bankans, þau framlög sem koma frá skattgreiðendum.

Ég óska eftir upplýsingum hér og nú um það hvort formaður viðskiptanefndar hafi haft upplýsingar um þetta þegar hún skrifaði undir nefndarálitið. Að mínu mati er algjörlega óásættanlegt þegar viðskiptanefnd fer fram á það við samningsaðila, þar sem ríkið er einn af þremur samningsaðilum, að við fáum ekki upplýsingar um að búið sé að veðsetja allt að helmingi þess eigin fjár sem fjármálaráðuneytið lét inn í Landsbankann.