145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður sér fyrir sér að við getum leitt þetta mál farsællega til lykta. Það verður aldrei þannig að við verðum öll alveg sammála um alla hluti en ég held að hægt sé að ná góðri samstöðu um meginatriði. Ég vil vísa hér, vegna þessara orða hv. þingmanns, í ágæta grein sem formaður stúdentaráðs birti í dag þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í töflunni hér að ofan sést að lánsþörf barnlausra einhleypra nemenda sem ekki búa í foreldrahúsum er hæst miðað við framfærsluviðmiðin. Samt sem áður sýna útreikningar að allir hópar munu þurfa að greiða minna til baka á endanum, miðað við að þeir fái aðstoð og lán sem nemur 100% framfærsluviðmiði.“

Hv. þingmaður nefndi það einmitt að við viljum ekki hvetja til óþarfrar skuldsetningar o.s.frv. Miðað við 100% framfærsluviðmið, eins og hér er reiknað, kemur þetta betur út fyrir hópinn. Ættum við ekki að geta náð okkur bara nokkurn veginn saman um kerfisbreytingu sem leiðir til þessa? Ég hef trú á því að Alþingi geti gert það og við skulum láta reyna á það.