145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[19:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þurfa að skoða sérstaklega hvernig er hægt að styðja við fólk vegna húsnæðiskostnaðar sem fylgir því að flytja sig búferlum utan af landi hingað á höfuðborgarsvæðið. Oftar en ekki er það tímabundið. Auðvitað vonum við það sem viljum að landsbyggðin haldist sem sterkust í byggð að það fólk sem kemur hingað á höfuðborgarsvæðið hugsi það sem tímabundið meðan á námi stendur og hugsi sér að fara aftur heim eða út á land, hvort sem það er nákvæmlega á fæðingarstaðinn eða ekki, til þess að efla það svæði með menntun sinni og annað því um líkt. En það þarf að vera, finnst mér, eitthvað sem styrkir fólk í búsetu, því að það er mikið ójafnræði þarna á ferðinni. Ef við erum í raun að tala um að allir eigi að sitja við sama borð þá verðum við að koma á einhvern hátt sterkar að því að hafa búsetustyrki. Af hverju mátti ekki nýta þessar 65 þús. kr. í þeim tilgangi? Af hverju er verið að dreifa þeim flatt yfir burt séð frá því hvort fólk þurfi á því að halda, með fullri virðingu fyrir öllu unga fólkinu á höfuðborgarsvæðinu sem býr í heimahúsi og getur verið þar eins lengi og það vill? Þarf það endilega eitthvert tannfé upp á 65 þús. kr.? Þarf ríkið að koma með þann stuðning? Væri ekki þeim stuðningi betur varið í að stuðla að jafnrétti til náms og horfa á landið okkar sem eitt land og eina þjóð með sömu tækifæri?