145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þær áhyggjur að hugvísinda- og jafnvel félagsvísindagreinar sem eru mikilvægar fyrir samfélög muni bera skarðan hlut frá borði. Ég sem bæði hug- og félagsvísindakona tel það mjög alvarlegt.

Svo vil ég líka segja að ég held að það sé margt sem við þurfum líka að skoða í þessu samhengi. Hér er verið að gefa dæmi, aðstæður batna hjá þeim sem ekki eru að borga skólagjöld, virðist vera, út frá þessum reikningum, en við höfum líka á síðustu árum — þegar ég hóf háskólanám rétt fyrir 1990 var sennilega meiri einsleitni í háskólakerfinu en á móti kom að mjög margir Íslendingar fóru utan til náms þannig að þetta var svona breið reynsla og mörg sjónarhorn sem komu síðan til baka út frá því, en þá var fólk almennt ekki í námi á Íslandi með skólagjöld. Nú er það orðið þannig að fólk fær lánað, er látið sjálft greiða fyrir námið í stað þess að við sem samfélag stöndum undir háskólanámi í landinu. Svo ætlum við að lána fólki fyrir því á 5–6% vöxtum. Þetta er mannfjandsamleg stefna, vil ég meina, og mjög óhagstæð fyrir margar faggreinar á Íslandi.