150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef engan fund setið þar sem sölutrygging er á dagskrá. Við höfum enga aðkomu haft að því, við höfum ekki verið beðin um neina skoðun á því og eftir því sem ég best veit liggur ekkert fyrir um mögulega sölutryggingu. Við skulum bara segja það alveg eins og er að áhætta ríkisins á heildina litið yxi við sölutrygginguna en á hinn bóginn er verið að kynna til sögunnar hlutafjárútboð þar sem vænt ávöxtun fjárfesta á að verða umtalsverð, gangi rekstraráætlanir eftir. Við skulum þá líka leyfa því að fljóta með í umræðunni um mögulega sölutryggingu að menn nytu ávaxtanna af því ef vel gengi. En ég hef engan sérstakan áhuga á því að ríkið sé að blanda sér í slíka hlutafjáráhættu. Ég hef bara engan áhuga á því. Það verður að vera viðskiptaleg ákvörðun þeirra banka (Forseti hringir.) sem í hlut eiga hverju sinni.