150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einlæg ósk mín að þau svör fáist, að það sé ekkert flóknara en það. En af gefinni reynslu höfum við upplifað það ansi oft hér á þingi að ríkisstjórnin er með ákveðnar upplýsingar sem þingið fær ekki. Meira að segja hafa þær niðurstöður verið raktar í dómsmálum að ráðherra hafi haldið upplýsingum frá þinginu. Það er enginn vafi á því.

Það hafa verið mál þar sem hefur komið skýrt fram að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna greiða atkvæði af því að þeir treysta ráðherrum sínum, ráðherrum ríkisstjórnarinnar, ekki af því að þeir sjálfir hafi upplýsingarnar sem skipta máli varðandi ákvarðanatökuna heldur er það þeirra sannfæring að fylgja ráðherrunum. Allt í lagi. Það er alveg góð og gild skoðun á því hver sannfæring hvers þingmanns er.

En það er hins vegar ákveðið ójafnvægi þarna á milli af því að stjórnarandstaðan, sem er ekki með ráðherra í ríkisstjórn, hefur ekki aðgang að þeim ráðherrum sem um ræðir og hvað þá að hún beri traust til þeirra. Þess vegna er stjórnsýslan ákveðinn spurningavettvangur fyrir þingið og þá sérstaklega fyrir þingmenn stjórnarandstöðu sem hafa ekki aðgang að ráðherrum. Mér finnst sá aðgangur tiltölulega óviðeigandi. Það er t.d. tiltölulega óviðeigandi þegar hálf fjárlaganefnd fær til sín ráðherra til að spyrja spurninga um ákveðin mál o.s.frv. en þeir sem eru ekki í ríkisstjórn fá ekki aðgang að ráðherra til að spyrja sömu spurninga.

Þetta er það sem ég er að reyna að vekja athygli á, að við hér inni í þessum sal eigum að hafa jafnan aðgang að upplýsingum sem skipta máli hvað varðar ákvarðanatöku um einstök mál. (Forseti hringir.) Það hefur ekki gerst, sögulega séð, og ég vona að reyndin verði önnur í þessu máli. En (Forseti hringir.) ég leyfi mér að vera efins.