150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:14]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er búinn að hlusta á hv. þingmann halda þessar andsvararæður sínar við alla stjórnarþingmenn, held ég, og ég verð æ meira hissa, en aldrei meira hissa en nú. Í fyrsta lagi var ég ekki endilega að dásama þessa leið þannig að mér fyndist hún sú besta í öllum heiminum. Mér finnst þetta vera skynsamleg leið í þessari stöðu, en að ég geti ekki talið að einhver leið sé skynsamleg fyrr en ég er búinn að skoða allar aðrar leiðir — það er veruleiki (Gripið fram í.) sem ég skil ekki, að ég geti ekki dásamað þessa leið öðruvísi en að ég sé búinn að útiloka aðrar. Það var nokkurn veginn það sem hv. þingmaður sagði.

Ég get alveg farið í bíó og fundist bíómyndin sem ég er að horfa á mjög góð, og dásamað hana, án þess að ég sé búinn að horfa á þúsund aðrar bíómyndir eða allar aðrar bíómyndir. Við fáum ekki einar þrjár til sex útgáfur af lögum og frumvörpum í hvert skipti sem þurfum að taka ákvörðun, og útilokum svo þangað til eitt er eftir. Þessi lög eru best. Svona virkar það ekki. Þetta virkar kannski í einhverjum excel-skjölum í tölvu. Ég nálgast þetta öðruvísi en hv. þingmaður. Ég nálgast þetta með fyrstu spurningunni, eins og ég reyndi að koma að í mínu máli: Hver er besta, útlátaminnsta leiðin til þess að ná þessu markmiði? Hvað er það sem ég vil ná fram? Ég vil helst ná því fram að þurfa aldrei að fá krónu út úr ríkissjóði. Ef við finnum leið til að það gerist, er það þá ekki fínt? Mér finnst það. Þetta er sú leið sem ég hef séð sem getur uppfyllt allar þær óskir sem ég hef í þessu erfiða máli, í þessari stöðu sem enginn vill vera í. Ef mér er sýndur vegur milli tveggja staða þá fer ég hann stundum af því að ég veit að hann leiðir mig þangað sem ég vil fara án þess að ég sé búinn að setjast yfir Google Maps og skoða allar aðrar leiðir á milli A og B.