150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Ég verð að vera ósammála henni um að línan sé skýr, því að það er hún ekki. Þess vegna hafa málin komið hér upp ítrekað, aftur og aftur, vegna þess að fyrsta útgáfa, önnur útgáfa og þriðja útgáfa þeirra hafa ekki dugað. Vill þessi þingmaður sem hér stendur halda beint áfram án þess að taka tillit til neins sem gerist í kringum okkur? Aldeilis ekki. Þess vegna benti ég á Dani. Danir eru með góða landamæravörslu. Danir eru ekki með skimun á landamærum. Danir eru með rauðan og gulan lista yfir þjóðir sem færast á milli eftir því hvernig gengur hjá þeim að fást við veiruna og á því byggist það hvort þegnar þessara landa fái að koma til Danmerkur eður ei. Þetta er mjög einfalt. Það er kannski það sem ég er að kalla eftir í staðinn fyrir að hafa landið opið eina vikuna og lokað aðra. Maður skrúfar ekki frá ferðamennsku eins og krana, því miður. Þessi hringlandaháttur verður til þess að erlend flugfélög, ferðaskrifstofur, selja ekki ferðir til Íslands af því að þau treysta ekki íslenskum stjórnvöldum, af því að þau tala ekki skýrt. Það er ekki bara skoðun þess sem hér stendur, það er skoðun þeirra sem þar um véla o.s.frv. Það er það sem er áhyggjuefnið.

Áhyggjuefnið er líka það að toga hefur þurft ákvarðanir út úr ríkisstjórninni nánast með töngum frá fyrsta degi. Þær koma, en fyrst eru þær tilkynntar á einhverjum glærum úti í bæ og síðan er farið að smíða tillögurnar. Þetta er reyndar dálítið öfug aðferð miðað við það sem mér finnst skynsamlegt. Og þess vegna sagði ég áðan að það væri einnar messu virði fyrir ríkisstjórnina að hafa stjórnarandstöðuna með sér í stórum ákvarðanatökum til að vanda ákvarðanirnar, svo þær séu réttar og að þær standi og standist, af því að stefnan er ekki skýr.