131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:07]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að mikilvægt sé að ræða umhverfismál ítarlega og hefði gjarnan kosið að við á Alþingi ræddum þau ítarlega. En ég geri mér líka grein fyrir því að það gerir maður ekki með öll þessi mál á dagskrá síðasta kvöld þingsins. Það er bara svo.

Ég vil taka það fram að við í Samfylkingunni höfum metið það mjög mikils að formaður umhverfisnefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur leitað eftir góðu samstarfi í nefndinni og það er gífurlega mikilvægt að formenn nefnda sýni góða viðleitni til að eiga samstarf við nefndarfólk sitt ekki síður í stjórnarandstöðu en í meiri hluta. Ég er líka þeirrar skoðunar að það hafi verið þýðingarmikið að umhverfisráðherra gerðist formaður umhverfisnefndar í aðdraganda þess að hún tók við ráðherradómi. Hún vildi hafa samráð og ég held líka að nefndin hafi notið þess að umhverfisráðherra var komin með umtalsverða þekkingu á málum nefndarinnar þegar hún tók við ráðherradómi.

Ég vil líka segja að við hefðum þurft að nýta betur tíma okkar og við hefðum getað klárað þetta mál fyrr. Það var óþarfi að geyma málið. Við hefðum getað lokið umfjölluninni fljótlega í upphafi árs í stað þess að lenda með það í málasúpunni núna, og það hittir okkur því fyrir í kvöld, vegna þess að þetta mál kom með fyrstu málum inn í þingið í haust.

Ég minni líka á gildi þess að leitast við að ná víðtækri sátt um lög sem eiga að lifa. Í mörgum þingum er lögð höfuðáhersla á að reyna að ná u.þ.b. 80% þátttöku í þingunum við löggjöf sem menn ætlast ekki til að verði rifin upp um leið og verða stjórnarskipti hverju sinni. Því met ég það að vilji var til að eiga samstarf við okkur. Við í Samfylkingunni ákváðum einmitt að við mundum reyna að hafa samvinnu og hafa áhrif á niðurstöðu málsins í stað þess að snúa baki við því þegar við uppgötvuðum að málið gat ekki að öllu leyti orðið eins og við hefðum kosið og hafa áhrif á í hvaða átt því var breytt. Það er skoðun mín að það sé oft óþarflega mikil óbilgirni hjá ríkjandi stjórnvöldum að leita ekki eftir góðri niðurstöðu í málum.

Það er afstaða okkar í Samfylkingunni að rétt sé að flytja ákvörðunarvaldið frá stjórnsýslustofnuninni til pólitískt kjörinna fulltrúa. Það er grunnbreytingin í þessu frumvarpi, það er megininntak laganna um mat á umhverfisáhrifum núna að allir gangi til verka með þekkingu á umhverfisáhrifunum og með þekkingu á því eins og unnt er hverjar verði afleiðingar framkvæmdanna verði farið í þær.

Við vorum ekki sammála því og vorum búin að sjá gallana á því að stjórnsýslustofnun og embættismenn ættu í raun og veru að úrskurða um pólitíska ákvörðun. Þess vegna höfum við farið í þá vegferð að fara með í málið og hafa áhrif á niðurstöður þess vegna þess að lög um mat á umhverfisáhrifum eru ekki náttúruverndarlög í eðli sínu. (Gripið fram í.) Nei, þau eru það ekki, en tortryggnin er meiri við svona lagagerð af því að ýmis lög á náttúruverndarsviði eru ekki alveg í lagi og við lögum það ekki með því að taka náttúruvernd inn í umhverfisbálkinn mat á umhverfisáhrifum. Hins vegar þarf að styrkja þá löggjöf sem sett hefur verið á náttúruverndarsviði þar sem hún er veikburða og það þarf að setja ákvæði um umhverfisrétt inn í stjórnarskrána og ég treysti því að stjórnarskrárnefndin geri það.

Rammaáætlun um virkjanir verður að vera raunverulegt tæki sem hefur gildi við ákvarðanatöku. Sömuleiðis verður að vinna náttúrufarskort og nú erum við búin að flytja tillögu um það þrisvar sinnum við fjárhagsáætlun, nefndin öll, og ég ætlast til þess að við horfum á það að ef svona löggjöf á að vera í lagi samkvæmt þeirri hugsun sem er í þessari löggjöf núna þá verða hinir hlutirnir að vera í lagi því aðeins þannig tekst okkur að tryggja sátt um það annars vegar hvernig við ætlum að vernda og hins vegar hvernig við ætlum að nýta. Um það snýst allt heila málið. Af því að þeim þáttum sem ég lýsti stuttlega er ábótavant þá er meira sett á þessa löggjöf og krafan verður stærri í alls kyns smáatriðum og það er mjög mikilvægt að lesa þær kröfur rétt.

Við í Samfylkingunni höfum haldið á lofti lýðræðissjónarmiðunum í þessari vinnu og þar skilur kannski mest á milli okkar og stjórnarmeirihlutans sem vill takmarka aðkomu almennings og vill hafa ákvörðunarvald stjórnvaldsins meira. Mér finnst það óskiljanlegt vegna þess að það er sannfæring mín að þeir einstaklingar sem láta sig þessi mál varða munu alltaf nýta þær leiðir sem bjóðast. Það þýðir að þeir verða einfaldlega aðilar annaðhvort að hagsmunasamtökum sem verða til um eitt mál, hvort sem það mál er Gullfoss lifi eða óbreytt Þjórsárver, eða þeir gerast aðilar að umhverfissamtökum og í gegnum slík hagsmunasamtök og slík umhverfissamtök taki málið upp. Með því að breyta þessu er ekki verið að stoppa neina einstaklinga. Það er aðeins verið að taka upp minna lýðræði og meiri höft og það finnst okkur rangt. Þess vegna munum við styðja breytingartillögur minni hlutans sem lúta að því að opna ferlið og auka aðkomu almennings en við munum sitja hjá við aðrar tillögur minni hlutans.

Við höfum haft gott samstarf, ég vil taka það sérstaklega fram, innan stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Mér finnst samt tillögur vinstri grænna sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur mælt fyrir mótast af grundvallarafstöðu til þess hverjir eigi að taka pólitískar ákvarðanir og að í þessu tilfelli eigi það að vera Skipulagsstofnun á meðan við erum ekki sammála því að embættismenn taki pólitíska ákvörðun. Þar skilur í milli og þess vegna skildi leiðir.

Ég ætla örlítið, virðulegi forseti, í minni stuttu ræðu að víkja að nefndaráliti meiri hlutans sem við stöndum að með fyrirvara. Við hefðum, eins og ég hef sagt, viljað óbreytta þátttöku almennings og umhverfissamtaka í ferlinu en það skiptir okkur miklu máli að fækka aðildarfjöldakröfunni úr 50 í 30 í umhverfissamtökum og enn fremur að á því er tekið í nefndaráliti með hvaða hætti sjálfsprottin samtök, einsmálssamtökin eins og ég vék að áðan, hafi aðkomu. Þetta finnst mér skipta miklu máli.

Ég vil líka vekja sérstaklega athygli á því að það virðist samdóma álit í nefndinni að styrkja þurfi betur fjárhagslega stöðu og möguleika náttúruverndarsamtakanna svo að þau hafi bolmagn til að sinna verkefnum sínum á þessu sviði. Það kemur hvorki fram í tillögum okkar né beint í nefndarálitinu svo það skiptir máli að það komi fram í umræðunni og sérstaklega að formaður ítreki það.

Samstaða náðist með stjórnarmeirihlutanum um meiri opnun. Matsskýrsla eins og álit Skipulagsstofnunar verður nú opinbert gagn. Það var áður óljóst með aðgang að endanlegri matsskýrslu og þetta skiptir okkur miklu máli. Það er mikilvægt að nú er skýr leiðbeining til Skipulagsstofnunar um hvað skuli gera þegar matsskýrsla víkur frá frummatsskýrslu hvað mikilvæga þætti varðar. Áður snerist þetta um það hvort hún mundi víkja verulega frá frummatsskýrslu. Þetta er grundvallarmunur varðandi alla hugsun í ferlinu og þetta skiptir okkur máli.

Bæði varðandi almenning og vísindamennina er nú ljósara með breytingartillögunni í 5. lið b að áskilið er að Skipulagsstofnun muni meta gildi þeirra gagna sem fram hafa komið. Reynslan hefur sýnt að á þessu er þörf. Ég ætla samt ekki að fara yfir þau dæmi sem kalla á þessa breytingu.

Ég vil líka, virðulegi forseti, minna á að ýmislegt breyttist í frumvarpinu frá því að við unnum með það í fyrra og þar til það kom fram í haust, m.a. að sveitarstjórnin sem á í hlut tekur nú rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Þetta er mjög mikilvægt því að þetta eru ekki bara lög, eins og mér fannst koma fram áðan, um formið eða formsatriðin, þetta eru lög sem eiga að tryggja að umhverfisáhrif komi ekki aftan að neinum. Þetta er mjög mikilvægt.

Það er líka skilgreiningin og orðin „umtalsverð umhverfisáhrif“ sem voru farin út úr lögunum með frumvarpinu í fyrra og voru tekin inn aftur. Þetta var mikið hitamál síðasta þingvetur og við eigum að muna það líka hvað það var sem breyttist frá einum vetri til annars við að frumvarpið fór í endurnýjun.

Mest metum við, herra forseti, að komið var til móts við okkur með úrskurðarnefndina. Við vildum ná því fram að það væri alveg ljóst að aldrei væri vafi á að úrskurðarnefndin væri óháð stjórnsýslunni. Ég tek sérstaklega fram hvað það skiptir miklu máli að komið var til móts við okkur með breytingartillögu á þessu máli, að Hæstiréttur tilnefnir fjóra aðila í úrskurðarnefndina, alla með fagþekkingu á ólíkum sérfræðisviðum.

Svo vil ég taka fram að ég tel alveg sjálfsagt að við munum fá endurskoðun á þessu máli þegar og ef ný Evrópusambandstilskipun verður staðfest hjá okkur. Það kemur ekki annað til greina.

Ég ætla í lok ræðu minnar — ég ætla ekki að hafa hana lengri, þetta eru meginatriði, það hefur engan tilgang að fara dýpra í svona mál á síðasta kvöldi þingsins — að árétta löngun mína til þess að meiri hlutinn geri meira af því og leggi meiri áherslu á að ná niðurstöðu í vinnu við lagasmíð vegna þess að annars er löggjöfin rifin upp aftur við fyrsta tækifæri, fyrst og fremst við stjórnarskipti.