131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Rekstur skólaskips.

29. mál
[21:24]

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að kynna nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um rekstur skólaskips frá sjávarútvegsnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið skriflegar umsagnir um það frá Kennaraháskóla Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Félagi kvótabátaeigenda, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fiskvinnslustöðva og Skólastjórafélagi Íslands.

Með tillögunni er lagt til að sjávarútvegsráðherra verði falið að stuðla að því að aftur verði boðið upp á fræðsluferðir fyrir grunnskólanema um fiskveiðar, vinnulag til sjós, fiskifræði og líffræði sjávarins, með sama eða svipuðu sniði og gert var um borð í rannsóknaskipinu Dröfn RE í samstarfi við Hafró.

Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur nú fengið frá sjávarútvegsráðuneytinu gerði ráðuneytið hinn 25. febrúar sl. samning við einkaaðila um að taka að sér siglingar með nemendur 9. og 10. bekkjar grunnskólanna og verður rannsóknaskipið Dröfn RE notað í verkefnið. Fyrirkomulag verkefnisins verður með svipuðu sniði og áður og mun Hafró annast fræðslu um borð um lífríki sjávar og Fiskifélag Íslands sjá um skipulagningu, skráningu og kynningu á verkefninu. Verkefnið hófst í apríl sl. og hafa þegar verið farnar nokkrar ferðir og verður haldið áfram í haust. Umræddur samningur tekur til allt að 30 siglingadaga á þessu ári og er ætlunin að endurskoða hann að haustsiglingum loknum.

Um leið og nefndin fagnar því að rekstur skólaskips sé hafinn á ný leggur hún áherslu á að áfram verði haldið á sömu braut og verkefninu tryggt nægilegt fjármagn til að svo megi verða. Með hliðsjón af því og í samræmi við framangreint telur nefndin rétt að leggja til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Kristinn H. Gunnarsson, Kristján L. Möller, Hjálmar Árnason og Magnús Þór Hafsteinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir álitið rita Guðjón Hjörleifsson, Einar K. Guðfinnsson, Jóhann Ársælsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Jón Gunnarsson.

Virðulegi forseti. Í eldhúsdagsumræðum í gær kom fram að það væri mjög algengt að þingmannafrumvörp sætu eftir í nefndum og væru ekki afgreidd. Sjávarútvegsnefnd hefur fengið til sín fimm þingmannafrumvörp á þessu tímabili. Tvö þeirra hafa verið afgreidd út, bæði frá fulltrúum minni hlutans, sem er 40% árangur. Ég tel það mjög gott. Ég vil að lokum þakka nefndarmönnum í sjávarútvegsnefnd fyrir mjög gott samstarf og ég tel að við séum að vinna á réttum grundvelli. Samstarfið hefur verið virkilega gott og ég held að engin nefnd hafi verið eins jákvæð í málflutningi sínum.