136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar -- orð heilbrigðisráðherra.

[10:54]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér úr allt annarri átt því að ég átti von á að til mín yrði beint spurningum um tónlistar- og ráðstefnuhús. Ég vil minna hér á minnisblöð og orðsendingar Ríkisendurskoðunar til þingsins sem ég hef gert grein fyrir um það að Ríkisendurskoðun telur að það séu lagaheimildir fyrir hendi vegna þessa.

Þá vil ég einnig minna á nýútkomna ársskýrslu Ríkisendurskoðunar sem við fjölluðum um fyrir hálfum mánuði og ég vil hvetja þingmenn til að kynna sér þessa ársskýrslu. Í henni er til að mynda afar fróðleg grein um framkvæmd fjárlaga sem ég hef verið talsmaður fyrir á þinginu. Ég vonast til þess að ný fjárlaganefnd sem tekur til starfa á sumarþingi muni taka skýrsluna til meðhöndlunar og greina frá efnisinnihaldi hennar.

Ég hef alla jafna verið mjög alvarlegur hér í tvö ár á þinginu en vil að lokum vegna ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem minnti hér á Soffíu frænku og sagði að í leikriti Thorbjörns Egners hefði Soffía frænka komið og tekið til eftir ræningjana þrjá. Thorbjörn Egner skrifaði mjög góð leikrit og ég meðhöndlaði þau sem SG-hljómplötur í 20 ár og vil minna hv. þm. Árna Þór Sigurðsson á það að leikritið endar með þeim hætti að Soffíu frænku er skilað og ræningjarnir þrír verða síðan að betri mönnum. Einn þeirra verður slökkviliðsstjóri og sá hinn sami giftist Soffíu frænku í leikritinu. Og ég velti því fyrir mér bara í lokin, af því ég hlustaði á þetta hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, bíddu, eru einhver pólitísk skilaboð í þessum orðsendingum hans varðandi þetta mál? Maður verður auðvitað að kunna leikritið allt til enda.