136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[12:46]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín spurning var miklu frekar hvort fæðingar verði lagðar niður í sumar eins og undanfarin sumur og hvað verði síðan í kjölfarið. Því það mátti ráða af orðum ráðherra á sínum tíma að fæðingum yrðu haldið áfram en ekki haldið uppi viðtekinni venju síðastliðinna ára að leggja niður fæðingar með skurðstofubakhjarl á þessum stofnunum.

Hins vegar verð ég að segja að hafi ég misskilið varðandi orð hæstv. menntamálaráðherra þá er ég ekki ein um það. Bandalag háskólamanna ályktaði í gær í þá veru og mótmælti frekari skerðingu launa og bentu þar m.a. á að háskólamenn hefðu þegar tekið á sig töluverða kjaraskerðingu í síðastliðnum mánuði. Það sama á við um umbjóðendur hæstv. ráðherra sem eru félagsmenn í BSRB. Þeir hafa jafnframt gefið til kynna að þeir væru ekki ánægðir með þessa yfirlýsingu sem beindust fyrst og fremst að opinberum starfsmönnum.

Síðan get ég ekki heldur látið hjá líða að geta þess, fyrst ég náði nú hæstv. heilbrigðisráðherra hér í dag, að í morgun fór fram umræða vegna orða hans á fundi í gær þar sem mátti skilja, og ekki bara ég skildi það þannig heldur líka allt læknasamfélagið og allar heilbrigðisstéttir, að ráðherrann væri að væna heilbrigðisstéttir um vinnusvik. Hann ásakaði lækna um að láta gróðasjónarmið ráða læknisfræðilegri greiningu og læknisfræðilegri meðferð.

Það voru ekki einungis læknar þar undir vegna þess að hið svokallaða ávísanakerfi, sem er ekkert annað en samningur heilbrigðisstofnunar og ríkisins um ákveðna meðferð gegn ákveðinni greiðslu, þar eru fleiri heilbrigðisstéttir undir, t.d. tannlæknar, sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar og iðjuþjálfar fyrir utan lækna. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra hlýtur að þurfa að svara þessum viðbrögðum, m.a. (Forseti hringir.) Læknafélags Íslands við orðum hans í gær.